Af heimildagildi Landnámu

„Tilgáta mín er sú að Landnáma hafi verið sett saman strax í byrjun 12. aldar sem sagnarit þar sem safnað hafi verið sögnum um landnámsmenn og afkomendur þeirra. Þar hafi meira borið á persónubundinni sögulegri nálgun en staðfræðilegri. Ein gerðin gefur upplýsingar um að innihaldið hafi verið að „rekja ættartölur“ og „forn fræði“. segir Auður Ingvarsdóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur við Reykjavíkurakademíuna. Hún er einn þeirra fjölmörgu innlendu og erlendu fræðimanna sem koma fram á fyrirlestraröð Miðaldastofu í vetur þar sem fjallað verður um landnám Íslands út frá víðu sjónarhorni. Fyrirlesarar koma úr hinum ýmsu greinum, svo sem sagnfræði, bókmenntafræði, fornleifafræði, dýravistfræði og þjóðfræði. Meðal þess sem fjallað verður um er heimildagildi Landnámu sem margir sagnfræðingar hafa nú sett spurningamerki við þótt enn sé hún notuð víða sem heimild um hvar og hvenær menn og konur námu land við Íslandsstrendur.

Mikilvægt að koma af stað umræðu

Auður Ingvarsdóttir.
Auður Ingvarsdóttir.

Auður, sem hefur skoðað Landnámu í mörg ár, telur hana grundvallarrit í íslenskri sögu, oft sé vitnað í hana í alþýðlegri sagnfræði og margir þekki sögu landnáms á sínu heimasvæði. Hún ætlar að umfjöllun um heimildagildi hennar geti virkað vel til að koma af stað umræðu um bókina og koma að annarri sýn á Landnámu enda sé fólk almennt forvitið um upprunann. „Margir nútímamenn hafna Landnámu sem heimild um atburði fortíðar og raunverulega landnámstíð en telja að hún geti aðeins nýst sem heimild um ritunartímann og samfélagslega háttu samtímamanna ritarans. Sögulegar frásagnir Landnámu hafa þannig jafnvel verið afskrifaðar sem „goðsögur og uppspuni“. Flestir eru sammála því að rit um landnám hafi fyrst verið skráð í byrjun 12. aldar og Ari fróði jafnan nefndur til sögunnar. Varðveittar gerðir eru þó til muna yngri en þó hafa menn viljað draga upp mynd af þeim texta sem stæði næst upprunagerð. Sú þróunarsaga hefur átt upp á pallborðið að Ari fróði hafi skrifað stutt og markvisst um landnámsmenn, síðari ritarar hafi svo bætt við eftir hentugleikum. Hagnýtur tilgangur hafi verið með ritinu strax í upphafi. Í fyrirlestrinum velti ég fyrir mér hvers konar rit Landnáma hafi verið í upphafi og hvort tilgátan um Landnámu sem stutta og hagnýta skrá um jarðeignir sé endilega svo sennileg.“

Landnámabók er varðveitt í fimm gerðum, þremur fornum og tveimur samsteypum frá 17. öld. Myndin er af elsta  varðveitta texta Landnámu í Hauksbók AM 371 4to frá fyrri hluta 14. aldar. Mynd: Handritinheima.is (Árnastofnun).
Landnámabók er varðveitt í fimm gerðum, þremur fornum og tveimur samsteypum frá 17. öld. Myndin er af elsta
varðveitta texta Landnámu í Hauksbók AM 371 4to frá fyrri hluta 14. aldar. Mynd: Handritinheima.is (Árnastofnun).

Gagnrýnisbylgja

Helgi Þorláksson, prófessor í sagnfræði við Sagnfræði-og heimspekideild Háskóla Íslands flutti einnig fyrirlestur á vegum Miðaldastofu sem bar yfirskriftina Fimmtíu ár forgefins? Daufar undirtektir við fræðilegri gagnrýni á heimildargildi Landnámu. Ég fjallaði um heimildargildi Landnámu (Landnámabókar).  Frumlandnáma mun hafa orðið til um 1120 eða svo en er glötuð. Elsta varðveitta gerð er frá um 1270 eða svo og geymir ekki upprunalegan texta nema kannski að litlu leyti. Þótt Íslendingasögum væri hafnað sem sagnfræðilegum heimildum um elstu tíma sögunnar héldu fræðimenn nokkurri tryggð við Landnámu. En um 1970 reið yfir gagnrýnisbylgja og eftir hana hafa langflestir fræðimenn hafnað Landnámu sem heimild um menn og atburði á landnámstíma (870-930). Spurning mín var hvort þessi gagrýnibylgja hefði farið fram hjá öllum þorra Íslendinga eða væri gleymd.“

Mikilvægt að hafa fyrirvara á

Helgi Þorláksson.
Helgi Þorláksson.

Í niðurstöðum sínum dró Helgi fram fjölda nýlegra dæma þar sem Landnámu virðist treyst í aðalatriðum. Segir hann t.d. svo iðulega vera í almennum skrifum tengdum sögu einstakra héraða eða í kynningum fyrir ferðamenn. Telur hann að höfundar ættu að hafa fyrirvara á um frásagnir hennar um menn og atburði um 900 og nýta hana almennt með gát. „Mig langaði að minna á að það má færa sterk rök fyrir því að margt í Landnámu sér hreinn tilbúningur höfunda.“ Aðspurður afhverju mikilvægt sé að fjalla um efnið og miðla því til almennings segir Helgi að hann telji engum sé greiði gerður með því að telja þeim trú um að Landnáma sé traust heimild. Hún hafi líklega verið tekin saman í einhverjum tilgangi og ætlað að koma ákveðnum skilningi eða hugmyndafræði á framfæri. Það sé spennandi viðfangsefni að reyna að varpa ljósi á hver tilgangurinn hafi verið á hverjum tíma en líklegt sé að hann hafi verið mismunandi eftir því hvenær var skrifað; um 1120, 1240, 1270 eða 1305. „Þótt fólk sé svipt trú á tilvist nafngreinds landnema er ekki alls misst, sköpunarsaga Landnámu er forvitnileg, og þar með rök fyrir að einstakir landnemar séu tilbúnir og þá hvernig. Höfundar héraðssagna og ferðmannabæklinga gætu tekið upp ábendingar um þetta, þær eru oft hnýsilegar.“

 

Fyrirlestraröðin á vegum Miðaldastofu fer fram í stofu 101 í Odda kl.16:30 á fimmtudögum (nema annað sé tekið fram). Alla jafna eru fluttir tveir fyrirlestrar í hvert sinn. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

 

Reykjavík vikublað 39. tbl. 2014.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s