Kirkjuheimsóknir: Nýleg „hefð“ í Reykjavík

Úr kirkjuheimsókn skólabarna í Grafarvogi.
Úr kirkjuheimsókn skólabarna úr Rimaskóla í Grafarvogi í Grafarvogskirkju nú á aðventunni.

Skólastjórnendur í Reykjavík og sóknarprestar í höfuðborginni telja að ekki sé löng hefð fyrir skipulögðum kirkjuheimsóknum grunnskólanema á aðventunni. Skólastjórnendur segja margir að slíkar heimsóknir hafi verið lagðar af, en flestir prestar segjast fá skólabörn í heimsókn í kirkjur sínar í skipulögðum skólaferðum. Prestar telja almennt að svona heimsóknir hafi tíðkast í 15-30 ár, en skólastjórar tala almennt um 20 ár.

Reykjavík vikublað sendi sóknarprestum í Reykjavík fyrirspurn og skólastjórnendum fyrirspurn um hversu löng hefð sé fyrir heimsóknum skóla í kirkjurnar á aðventunni. Þessi mál hafa töluvert verið til umræðu undanfarna daga, bæði í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum og í borgarstjórn.

Prestar telja almennt að ekki sé löng hefð fyrir slíkum heimsóknum. Þannig nefna margir 15-20 ár, en dæmi eru um þetta hafi tíðkast í skemmri tíma. Einnig eru nokkur dæmi um að kirkjuheimsóknir skóla á aðventu hafi staðið um lengri tíma. Þannig er blaðinu sagt að frá 1980 hafi grunnskólar í Seljahverfi komið í Seljakirkju og í Bústaðasókn hefur þetta tíðkast lengur, í 43 ár að sögn sóknarprests.

Meiri samskipti áður

Einn sóknarprestur orðaði svar sitt svo: „Þessar heimsóknir hafa tíðkast í 15-20 ár eftir því hvaða skóla er átt við. Þess ber að geta að fyrir þann tíma tíðkaðist gjarnan að prestar kæmu í skólann og yfirleitt voru það prestar Þjóðkirkjunnar sem kenndu Kristinfræði í íslenskum grunnskólum. En þá var samstarf kirkju og skóla mikið um kennslu í kristinfræðum og fermingarfræðsla fór gjarnan fram í skólunum.“

Af svörum presta má ráða að mismunandi er eftir hvort allur skólinn komi saman eða einstakir árgangar eða bekkir, þar sem þetta hefur tíðkast. Einnig taka sumir fram að þau börn komi ekki, sem það ekki vilja. Aftur á móti er ekki annað á prestum að heyra en að þeir taki á móti skólahópum, og raunar leikskólahópum einnig á aðventunni.

Ekki hluti af skólamenningu

„Svo virtist að margir kennarar og skólar fengju allt í einu þessa hugmynd. Þetta er rannsóknarefni því að ekki eru kirkjuheimsóknir á aðventu hluti af menningu íslenskra grunnskóla – það er klárt,“ segir einn skólastjóra í Reykavík, en blaðið sendi einnig fyrirspurn til skólastjóra grunnskólanna. Svör þeirra eru almennt á þann veg að kirkjuheimsóknir tíðkist ekki lengur, þótt undantekningar séu á.

Tíðkast ekki lengur

Svör skólastjórnenda eru mismunandi og sumir nefna ekki hversu lengi svona heimsóknir hafi tíðkast, þótt þess sé getið að ekki sé lengur farið í kirkju á aðventu. Gjarnan er vísað í nýlegar reglur borgarinnar um samskipti skóla og kirkju í því sambandi.

Hins vegar hafi þessar heimsóknir alla jafna ekki hafist fyrr en fyrir um það bil tveimur áratugum, að jafnaði, á tíunda áratug síðustu aldar. „Þær voru ekki tíðkaðar fyrir þann tíma. Síðan varð aukning á þessum kirkjuferðum á þessari öld þegar kirkjan fór að leggja áherslu á þessar ferðir og þá var tekið á móti nemendum með sérstakri dagskrá,“ segir einn skólastjórinn í svari til blaðsins.

„Vettvangsferð“

„Um tíma var tekið á móti nemendum þannig að um eiginlegar trúarsamkomur var að ræða. Eftir að umræða og síðan reglur komu til um kirkjuheimsóknir þá varð kirkjuferðin að vettvangsferð þar sem kirkjan var sýnd og fræðsla veitt um trúarsiði kristinna manna,“ bætir hann við.

Margir skólastjórar greina frá því að svona ferðir hafi almennt verið farnar á aðventu, en þetta hafi lagst af undanfarin ár. Einn segir að síðast hafi verið farið árið 2008, annar nefndi árið 2010 og enn annars 2011. Þar sem farið er til kirkju eru jafnframt dæmi um að ákvörðun um slíkar heimsóknir sé í höndum einstakra bekkjarkennara.

Rétt er að geta þess að fyrirspurn blaðsins var send í tölvupósti á netföng allra skólastjóra og allra sóknarpresta í Reykjavík, ekki er víst að allir, hvorki prestar né skólastjórnendur, hafi fengið erindi blaðsins, en meirihluti þeirra sem fengu erindið, svöruðu fyrirspurninni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s