Birtingarmynd óæskilegrar einkavæðingar

HS-Veitur_standandi_kennimerki_liturTveggja milljarða greiðsla til eigenda HS veitna: Reykjanesbæjar, Hafnarfjarðar og einkafyrirtækis Heiðars Más Guðjónssonar.

„Ég tel að það þurfi að skoða þetta betur,“ segir Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fulltrúi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.

Hann segist „hugsi“ yfir tveggja milljarða greiðslu HS veitna til eigenda sinna og spyr hvort hér kunni að vera birtingarmynd óæskilegrar einkavæðingar. Þó þurfi að ígrunda gagnrýni á gjörninginn vandlega. Löggjafinn hafi skapað þennan farveg og sterk rök þurfi til þess að breyta lögum.

Reykjavík vikublað greindi frá því fyrir viku að Reykjanesbær, Hafnarfjarðarbær og HSV samlagshlutafélag, eigendur HS veitna, hyggjast láta greiða sér tvo milljarða króna út úr fyrirtækinu, en greiða ekki skatta eins og ef um arðgreiðslu yrði að ræða. Til stendur að lækka hlutafé sem nemur þessari upphæð, þó án þess að eignarhlutföll skerðist. Félagið hyggst taka lán fyrir þessari útgreiðslu til eigendanna. Væri þetta gert sem arðgreiðsla, myndu greiðslur til sameignlegra sjóða nema um 400 milljónir króna.

Reykjanesbær fær um helming greiðslunnar, milljarð króna eða þar um bil. HSV sem Heiðar Már Guðjónsson er í forsvari fyrir fær á milli 6 og 700 milljónir króna og Hafnarfjarðarbær 300 milljónir. Sandgerði sem á brot úr prósenti fær um eina milljóna króna. Þriðjungur félagsins var í fyrra einkavæddur og seldur Heiðari Má og viðskiptafélögum hans. Hann hefur fengið drjúgan hluta kaupverðsins til baka nú þegar. Markmið félagsins er að græða peninga á innviðum samfélagsins.

Vekur spurningar

Háskólamenn sem Reykjavík vikublað hefur rætt við hafa sagt þennan gjörning vekja spurningar, eða jafnvel sagt hann óeðlilegan, en búast megi við að hann standist lög. Einn viðmælandi blaðsins, sérfræðingur utan háskólasamfélagsins, spurði sig raunar hvort gjörningurinn kynni að brjóta í bága við 11. grein laga um tekjuskatt. Sú grein fjallar um skattskyldan arð, og sagði viðmælandinn sennilegt að líta bæri á þessa greiðslu út úr fyrirtækinu sem arðgreiðslu. Enginn fullyrti þó að um lögbrot væri að ræða.

Ábyrgt gagnvart nærsamfélaginu?

Willum Þór Þórsson spyr einnig hvort þessi aðferð eigenda HS veitna sé þjóðhagslega ábyrg, og svarar spurningunni neitandi. Hins vegar þurfi einnig að svara þeirri spurningu hvort aðferðin sé samfélagslega ábyrg, til dæmis með tilliti til þeirra nærsamfélaga sem málið snertir. Þeirri spurningu svarar hann ekki sjálfur.

Forstjóri HS veitna sagði um þetta mál í fréttum Stöðvar 2, aðspurður um hvort eðlilegt væri að ekki væri greiddur af þessu skattur, sagði hann að sem íbúi Reykjanesbæjar, vildi hann heldur að bærinn fengi milljarð úr fyrirtækinu en 800 milljónir. Þá hefur bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkt að verja fénu til að greiða niður skuldir. Bæði sveitarfélögin eru mjög skuldsett. Reykjanesbær þó sérstaklega.

Rífleg framlög frá öðrum

Bæði sveitarfélögin hafa fengið rífleg framlög frá öðrum sveitarfélögum og ríkinu í formi framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Á síðasta ári námu framlögin til þeirra samtals 2,8 milljörðum króna, og fékk Reykjanesbær tvo þriðju, eða sem svarar um 110 þúsund krónum á íbúa í sveitarfélaginu.

Ríkið greiðir um helming fjárins í jöfnunarsjóðnum, en stærsta framlag sveitarfélaganna kemur úr vösum reykvískra skattgreiðenda.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s