Bruninn í Reykjavík 1915

Séð vestur eftir Hafnarstræti, mannfjöldi fylgist með. Ingólfshvoll í ljósum logum.  Mynd: Magnús Ólafsson (1862-1937)
Séð vestur eftir Hafnarstræti, mannfjöldi fylgist með. Ingólfshvoll í ljósum logum.
Mynd: Magnús Ólafsson (1862-1937)

Steinsteypan hélt innreið sína af fullum krafti í Reykavík sem megin byggingarefni húsa, götumynd miðbæjarins tók stakkaskiptum. Rafmagnsveita leysti gas af hólmi fyrr en ætla mátti og Reykjavík eignast fyrsta alvöru slökkviliðið. Hér er rætt um þætti sem rekja má til stórbrunans í Reykjavík á þessum degi fyrir 100 árum. Tíu hús hurfu í eldhafið og tveir týndu lífi.

Borgarsögusafn hefur um nokkurra mánaða skeið undirbúið sýningu þar sem ítarlega er fjallað um brunann og afleiðingar hans. Sýningin verður opnuð í Ráðhúsi Reykjavíkur klukkan 13 íu dag. Fjölmargir hafa tekið þátt í undirbúningnum. Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins þar á meðal, frá umhverfis- og skiplagssviði Reykjavíkur. Þá á Helga Maureen Gylfadóttir frá Borgarsögusafni einnig sæti í hópnum en hún starfar sem verkefnisstjóri sýninga.

Hún segir við Reykjavík vikublað að í undirbúningi svona sýningar sé meðal annars fólgið að undir búa texta um viðburðinn, finna til myndir og gripi sem honum tengjast. Þessu þarf svo að koma fyrir á sýningarstað. Þess má geta að véldæla sem notuð var við hið eiginega slökkvistarf, verður þarna til sýnis meðal annars og er henni stillt upp við Tjarnargötuútgang Ráðhússins.

En þetta gengur ekki bara út á að lesa texta og skoða myndir. „Útbúinn var leikræn leiðsögn sem farið verður með tvisvar sinnum á laugardaginn þar sem saga brunans er rakin með leikrænum tilburðum og myndum,“ segir Helga.

Eldsupptök ókunn

Eldurinn breiddist út með ógnarhraða segir Helga Maureen Gylfadóttir, verkefnisstjóri hjá Borgarsögusafni.
Eldurinn breiddist út með ógnarhraða segir Helga Maureen Gylfadóttir, verkefnisstjóri hjá Borgarsögusafni.

Enda þótt eitthundrað ár séu liðin frá eldsvoðanum eru upptök hans enn ókunn, segir Helga. Hins vegar sé vitað að eldurinn hafi kviknað aðfararnótt 25. Apríl 1915 í herbergi 28 á Hótel Reykjavík við Austurstræti.

„Á skömmum tíma breiddist eldhafið um húsið. Veður var gott, hægur sunnan eða suðvestan blær sem snerist til vesturs þegar leið á nóttina. Slökkvilið bæjarins var komið á vettvang um 10 mínútum frá því að boð var gert um brunann. En á örskotsstundu náði eldurinn að læsa sig í húsin sitt hvorum megin við Hótel Reykjavík,“ segir Helga.

Ekkert hélt aftur af eldhafinu, segir Helga. Það læsti sig í húsin hinu megin við Austurstræti, þar á meðal í hinn rammgerða Landsbanka, og þaðan í hús við Hafnarstræti. „Alls brunnu tíu hús til grunna og tvö skemmdust verulega. Tveir menn fórust í eldinum, annar á Hótel Reykjavík, en hinn í húsinu Ingólfshvoli við Hafnarstræti. Í kjölfar brunans var bann sett við byggingu timburhúsa í miðborg Reykjavíkur,“ segir Helga og bætir við að þar með megi segja að steinsteypuöld hafi byrjað í Reykjavík.

Traust í viðskiptum

Skjámynd úr Morgunblaðinu 3. maí 1915.
Skjámynd úr Morgunblaðinu 3. maí 1915.

Ýmiss konar verslunar- og fyrirtækjarekstur var í húsunum sem brunnu. Þarna hafði meðal annars aðsetur hið nýlega stofnaða Eimskipafélag Íslands. Það missti allt sem innanstokks var. Þar á meðal var megnið af söluvöru fyrirtækisins, en einnig ýmis skjöl. Verslanir, þar sem vara var oft afhent upp á krít, töpuðu útlánabókum og þar með öllum heimildum um skuldastöðu viðskiptamanna. Þá hefur vafalaust reynt ákaflega á heiðarleika í viðskiptum, ef marka má texta þessarar auglýsingar sem Helga bendir á að birt var í Morgunblaðinu rúmlega viku síðar, 3. maí 1915:

„Heiðraða viðskiptavini bið ég vinsamlegast að gefa mér upplýsingar um það, hvað þeir hafa fengið úttekið við verslun mína í síðastliðnum mánuði, vegna þess að ÚTLÁNABÓKIN (kladdinn) fórst í brunaum. Mig er fyrst um sinn að hitta í Lækjargötu 4, niðri að norðanverðu, milli kl. 1. og 5. Virðingafyllst, Egill Jacobsen.“

Reykjavík vikublaði er ekki kunnugt um hvernig þetta fór hjá Agli Jacobsen. En því má velta fyrir sér hvort svona nokkuð þýddi nú á dögum ef upplýsingar um viðskiptaskuldir fólks hyrfu óvænt. Það má sennilega gera því skóna að fátt fengist upp í hinar glötuðu kröfur.

Viðbúnaðurinn

Hér rýkur úr rústunum morguninn eftir. Syndikatið og Hótel Reykjavík, þar sem eldurinn komu upp, eru bæði horfin en Landsbankahúsið er illa farið. Bruninn mikli hafði mikil áhrif á skipulagsmál í Reykjavík og í stað timburhúsa risu nú steinsteypt stórhýsi og má þar nefna húsaraðirnar við Austurstræti  7-11 og 10-16. Mynd: Magnús Ólafsson (1862-1937)
Hér rýkur úr rústunum morguninn eftir. Syndikatið og Hótel Reykjavík, þar sem eldurinn komu upp, eru bæði horfin en Landsbankahúsið er illa farið. Bruninn mikli hafði mikil áhrif á skipulagsmál í Reykjavík og í stað timburhúsa risu nú steinsteypt stórhýsi og má þar nefna húsaraðirnar við Austurstræti 7-11 og 10-16.
Mynd: Magnús Ólafsson (1862-1937)

Ýmsar úrbætur höfðu verið gerðar í brunamálum bæjarins fyrir brunann mikla, segir Helga. Hún nefnir Vatnsveituna 1909 og brunasímann sem lagður var um bæinn tveimur árum síðar. Þá Slökkvistöðina frá 1912 og reglugerðin um brunamál 2013. Þá störfuðu tveir varðmenn við stöðina sem stóð við Tjarnargötu. 36 fastir slökkviliðsmenn voru í útkallsliði. Í þá var hringt með brunasíma eftir þörfum. Varaliðið, sem í voru allir verkfærir karlar í bænum aðrir en embættismenn, var kallað út með lúðrum segir Helga.

Tókst að hefta útbreiðsluna

„Mörgu var þó ábótavant þegar stóra kallið kom. Búnaður slökkviliðsins var fábreyttur. Slöngur höfðu margar sprungið af því að þorna upprúllaðar um veturinn og frost hafði skemmt nokkra brunahana í miðbænum. Allt var unnið með handafli, hvort sem það snerist um að draga níðþunga slönguvagna á eldstað eða knýja vatnsdælurnar. Öflug véldæla í eigu einkaaðila var tekin traustataki og notuð við slökkvistörfin. Megináhersla varð fljótlega að reyna að hefta útbreiðslu eldsins til austurs og vesturs og tókst það að lokum,“ segir Helga Maureen.

Eftir þetta varð ljóst að Slökkvilið Reykjavíkur yrði að vera betur tækjum búið til að takast á við annan eins eldsvoða. „Bærinn keypti véldæluna sem notuð hafði verið við slökkvistörf í brunanum, nýjan sjálfheldustiga og fljótlega aðra véldælu. Turn var byggður við stöðina til að þurrka slöngur. Árið 1920 voru fyrstu þrír slökkvibílarnir keyptir og fyrsti sjúkrabíllinn var tekinn í notkun ári síðar. Varðmönnum á slökkvistöðinni í Tjarnargötu fjölgaði í sjö á næstu árum og áhersla var lögð á kunnáttu í meðferð véla og bifreiða.“

Gjörbreyttur bær

Timburhúsum í Reykjavík voru settar þröngar skorður í kjölfar brunans, bæði varðandi stærð og fjarlægðir milli húsa, segir Helga Maureen. Það varð til þess að steinsteypan tók yfir sem helsta byggingarefnið. Bruninn varð líka til þess að flýta fyrir stofnun Rafmagnsveitu Reykjavíkur til að leysa gasið af hólmi og byggingu vatnsgeymis á Rauðarárholtinu, bætir hún við.

– Hvað var byggt í staðinn?

„Aðeins mánuði eftir brunann samþykkti byggingarnefnd Reykjavíkur að framvegis væri bannað að byggja hús úr timbri nema að uppfylltum ströngum skilyrðum um stærð húsanna og fjarlægð frá lóðarmörkum og öðrum húsum. Eftir þetta var steinsteypa, sem þá var nýtt byggingarefni, svo til eingöngu notuð til húsbygginga í Reykjavík,“ segir Helga Maureen.

Apótekið fyrst

„Austurstræti 16, oftast kennt við Reykjavíkurapótek, er fyrsta húsið sem reist var á grunni brunarústanna. Húsið var frumraun Guðjóns Samúelssonar, sem síðar varð húsameistari ríkisins, við teikningu stórhýsis. Það voru dönsku athafnamennirnir Nathan og Olsen sem létu byggja húsið sem tekið var í notkun árið 1918, aðeins þremur árum eftir brunann,“ segir Helga Maurreen Gylfadóttir. „Það voru lengi sár í götumyndinni eftir brunann en hægt og bítandi var fyllt upp í þau sár.“

 

 

 

 

Númer myndar:  MAÓ 223                               Ljósmyndari:  Magnús Ólafsson (1862-1937)

1915
Reykjavíkurbruni. Séð vestur eftir Hafnarstræti, mannfjöldi fylgist með. Ingólfshvoll í ljósum logum.

 

 

Númer myndar:  MAÓ 365                               Ljósmyndari:  Magnús Ólafsson (1862-1937)

Aðfaranótt sunnudagsins 25. apríl 1915 varð einn mesti eldsvoði í sögu Reykjavíkur. Þessa nótt brunnu alls tólf hús í miðbænum, þar af tíu til ösku. Tveir menn létust í brunanum.
Hér rýkur úr rústunum morguninn eftir. Syndikatið og Hótel Reykjavík, þar sem eldurinn komu upp, eru bæði horfin en Landsbankahúsið er illa farið. Bruninn mikli hafði mikil áhrif á skipulagsmál í Reykjavík og í stað timburhúsa risu nú steinsteypt stórhýsi og má þar nefna húsaraðirnar við Austurstræti  7-11 og 10-16.

 

Númer myndar:  MAÓ 1092                            Ljósmyndari:  Magnús Ólafsson (1862-1937)

1920, slökkvistöðin við Tjarnargötu. Turn slökkvistöðvarinnar.

 

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s