Kandífloss

Ingimar Karl Helgason. Mynd: Dagur Gunnarsson.
Ingimar Karl Helgason.
Mynd: Dagur Gunnarsson.

„Af hverju skrifarðu nú ekki um þetta í blaðið?“ sagði við mig maður þar sem ég stóð í kuldanum á sumardaginn fyrsta ásamt sex ára dóttur minni, í langri röð eftir kandíflossi. Hann var orðinn dálítið kaldur, eftir langa bið, rétt eins og við feðginin, en sagði þetta samt sem áður, kannski í hálfgerðu gríni.

Eins og allir þekkja þá eiga raðirnar til að verða heldur langar á mannamótum. Hvort sem þær eru á klósett, andlitsmálningu eða sjoppur. Svo var einnig í kandíflossölu skáta í Seljahverfi á fimmtudaginn. En skátar höfðu áhugavert fyrirkomulag. Raðirnar voru tvær. Í fyrri röðinni stóðum við feðgin lengi, að okkur fannst. Ég gleymdi að taka tímann, en þetta voru örugglega meira en 20 mínútur. Þegar við loksins komum að sölulúgunni, fengum við hins vegar að vita, að þarna fengjum við aðeins að borga. 400 ríkisdalir afhentir. Síðan þyrftum við að fara í hina röðina en eftir þá langþráðu bið, fengist afhent bleikt kandífloss.

Hvernig vita þau með kandíflossið að við erum búin að borga? Spurði ég, enda bjóst ég kannski við að fá einhvern miða, kvittun, einhverja staðfestingu á greiðslunni. „Við treystum ykkur,“ svaraði skátastúlkan sem tók við peningunum.

Ég skal segja alveg eins og er. Ég varð steinhissa. Það er hreint ekki algengt í okkar samfélagi nú um stundir að fólk treysti hverju öðru. Hvað þá ókunnugum.

Hér í blaðinu er rifjuð upp frásögn af trausti á fólki. Þegar Egill Jacobsen kaupmaður bað viðskiptavini sína um að færa sér upplýsingar um skuldastöðu sína eftir að kladdinn hans brann í stórbrunanum 1915. Slík bón þætti sjálfsagt hlægileg og barnaleg bjartsýni nú um stundir. Ég veit ekki um árangurinn hans, en ég veit að ég og dóttir mín fengum kandíflossið með skilum án þess að gera neitt annað en að segja að við værum búin að borga. Það er ég sömuleiðis alveg viss um að engum datt í hug að svindla með því að fara bara í síðari röðina hjá skátunum á fimmtudaginn. Því vil ég hrósa skátunum sérstaklega fyrir framtakið. Það er ólíku saman að jafna sem við sjáum oft á æðstu stöðum. Nýjasta dæmið er í einu okkar stærsta efnahagslega hagsmunamáli sem þjóðar. Þar segist forsætisráðherrann efnislega ætla að henda lýðræði og samráði í ruslið. Hann treystir engum.

Nú vill svo til að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er íbúi Seljahverfis, þótt lögheimili eigi hann annars staðar. Hann hefði haft gott af því að rölta við hjá skátunum á fimmtudaginn og fá sér kandífloss.

Ingimar Karl Helgason

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s