Sorpa ætlaði í milljarða uppbyggingu án útboðs

gasHöfundur: Atli Þór Fanndal atli@thorfanndal.com

Kærunefnd útboðsmál gerði Sorpu afturreka með samning um uppbyggingu á gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi. Sorpa hugðist semja við danska fyrirtækið Aikan a/s án útboðs en áætlaður kostnaður var tæplega þrír milljarðar. Íbúar í Kópavogi hafa þegar tekið á sig hækkun sorphirðugjalda vegna fyrirhugaðrar uppbyggingu. Ódýrari lausnir eru í boði en Sorpa kaus að leita ekki á þær slóðir.

Gegn stefnu eigenda

Í gögnum málsins kemur fram að þvert á stefnu eigenda Sorpu, það er Reykjavík, Hafnarfjörður, Kópavogur, Seltjarnarnes, Mosfellsbær og Garðabær, átti að byggja gas- og jarðgerðarstöð sem tæki við óflokkuðu heimilissorpi. Var það meðal annars notað sem rök fyrir því að aðeins væri hægt að semja við fyrirtækið danska. Stefna eigenda Sorpu er að auka flokkun meðal annars vegna samfélagsáhrifa sem flokkun fylgja. Það er talið sýnt að slíku fylgir aukin meðvitund íbúa sem um leið dregur úr sorpi. Í landsáætlun er lögð áhersla á að minnka sorp, endurnota og síðan endurvinna. Flokkun á heimilum er lykilatriði í að auka meðvitund notenda og hvetja til minni úrgangs.

Markmið landsáætlunar

Í mars árið 2014 gerði fyrirtækið Environice úttekt á fyrirætlunum Sorpu fyrir skrifstofu umhverfisgæða á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. Minnisblaðinu var ætlað að meta kosti og galla fyrirætlana Sorpu út frá sjónarhóli sjálfbærrar þróunar og hvort áformin væru í takt við aðra stefnumótun sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem og markmið landsáætlunar um meðhöndlun úrgangs 2013-2024. Niðurstaða Environice er að sú lausn sem Sorpa teldi best til ætlaða uppfyllti ekki stefnumótun eigenda eða landsáætlun. Þá kemur fram að ólíklegt sé að moltan sem til verði við gasvinnslu með því að vinna oflókkað sorp með aðferð Aikon stöðvarinnar geti nýst utan urðunarsvæða vegna hættu á mengun og aðskotarhlutum. Þessari niðurstöðu mótmælti Sorpa harðlega í svarbréfi sem gert var að Mannvitum. Þar kemur fram að eigendasamkomulag um uppbyggingu stöðvarinnar í Álfsnesi geri beinlínis ráð fyrir að moltan verði notuð utan urðunarstaðsins. Þá er bent á að Solum, eigandi Aikan, framleiði „vottaðan jarðvegsbæti og er eitt af meginmarkmiðum með byggingu stöðvarinnar framleiðsla á jarðvegsbæti af háum gæðum til nýtingar utan urðunarstaðarins.“ Í samtali við Aikan í Danmörku kom fram að stöðin væri fær um að vinna moltu úr blönduðum úrgangi sem stæðist gæðakröfur. Á upphafsárum stöðvarinnar hefði sorp borist stöðinni sem ekki hefði verið flokkað með jafn góðum hætti og í dag. Lausn fyrirtæksins væri fullfær um að framleiða góða moltu úr óflokkuðu sorpi.

Flokkun nauðsynleg

Fyrirætlanir Sorpu fá vægast sagt útreið í samantekt Environice en þar segir: „Meginniðurstaða þessa minnisblaðs er sú að áform Sorpu um að reisa gas- og jarðgerðarstöð á höfuðborgarsvæðinu, þar sem tekið verði við óflokkuðum en formeðhöndluðum heimilisúrgangi til gasgerðar, séu vissulega í takt við áherslur í sameiginlegri svæðisáætlun sveitarfélaga á Suðurlandi, Suðvesturlandi og Vesturlandi. Hins vegar virðast áformin, eins og þau eru kynnt, stangast á við áherslur í stefnumótun einstakra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, þar sem þau fela ekki í sér neinn hvata til að draga úr myndun úrgangs. Auk heldur stuðla áformin ekki að aukinni flokkun og gera ekki ráð fyrir neinni fræðslu sem hvetji íbúa til að taka í auknum mæli ábyrgð á eigin neyslu og úrgangi. Þá virðast áformin aðeins að litlu leyti í takt við markmið landsáætlunar um meðhöndlun úrgangs 2013-2024.“ Hættan á að óflokkað plast verði eftir við moltugerð er eitt af því sem Environice segir að geri ómögulegt að nota moltu sem til verði í stöðinni án hættu að litlar plastagnir verði eftir. Þá telur Environice að sökum þess að plast sé ekki grófflokkað á heimilum missi það verðmæti sitt. Hreinleiki plasts sé lykilatriði í endurvinnslumöguleika þess. Þess skal getið að afar flókið er að fínflokka plast og því ólíklegt að heimili verði nokkurntíman í stakk búin til þess.

Óafsakanlegt að nota

Lykilatriði í röksemdafærslu Sorpu fyrir því að aðeins hafi verið hægt að semja við danska fyrirtækið er að stöðin geti unnið úr óflokkuðu Sorpi. „Líklegt verður að telja að molta sem unnin er úr óflokkuðum úrgangi innihaldi það mikið af aðskotaefnum að hún verði nánast ónothæf sem jarðvegsbætir,“ segir í úttekt Environice. „Þannig er nokkur hætta á að moltan verði of menguð af þungmálmum, þrávirkum lífrænum efnum eða öðrum efnum sem leynast í óflokkuðum úrgangi, til að hún verði nothæf sem áburður til ræktunar á matvælum eða fóðri. Sömuleiðis er nokkur hætta á að moltan innihaldi of mikið af plastögnum til að verjandi sé að dreifa henni á opin svæði, þó að þar séu hvorki ræktuð matvæli né fóður. Moltan kann með öðrum orðum að vera ónothæf til uppgræðslu og því líklega einungis nýtanleg sem yfirlag á urðunarstaði og hugsanlega til annarrar landmótunar að því tilskyldu að notað sé hreinna yfirlag yfir moltuna til að fyrirbyggja fok.“ Þá segir Environice að aðrar aðferðir séu betur til ætlaðar við gasvinnslu en hafi ekki verið skoðaðar. Eins og áður segir mótmælti Sorpa þessari niðurstöðu en gat ekki sýnt með skýrum hætti fram á að engin önnur lausn gæti uppfyllt kröfur hennar.

Ekki steinn yfir steini

Ljóst er á gögnum málsins að stjórnýslan við ákvörðun Sorpu fær falleinkun. Environice segir ákvörðunina ekki uppfylla eigendastefnu né landsskipulag og sé ekki best til þess fallin að gera slíkt. Þá hefur kærunefnd gert Sorpu afturreka með ákvörðun sína um að fara ekki í útboð. Uppbyggingin hefur af þessum sökum tafist verulega og mun gera eitthvað áfram. Sorpa var dæmt til að greiða Gámaþjónustinni og Metanorku ehf. eina milljón króna vegna málskostnaðar og hvatt til að uppbyggingin fari í útboð. Sorpu tókst því ekki að sýna fram á að Aikan væri eina fyrirtækið sem uppfyllt gæti kröfur Sorpu. Þá kemur fram í úttekt sem Sorpa lét vinna fyrir sig af hálfu Mannvits að lítil reynsla sé komin á aðferð Aikan og aðeins ein slík stöð sé rekin í heiminum. Það er hins vegar þvert á lýsingar eða „leiðarljós“ Sorpu við uppbyggingu stöðvarinnar. Í svarbréfi Sorpu til Kærunefndar útboðsmála segir að árið 2005 hafi verið mótuð leiðarljós við skoðun á tæknilausnum fyrir uppbygginguna. Þar er gerð krafa um að tæknin sé „reynd og prófuð tækni.“ Úrskurðarnefndin gerir alvarlega athugasemdi við þá fullyrðingu Sorpu að lykilatriði í ákvörðun sé að stöðin vinni úr óflokkuðu sorpi. „Andstætt því sem haldið hefur verið fram af varnaraðila undir meðferð málsins bera framgreind gögn hins vegar ekki með sér aðvarnaraðili hafi, á einhverju tíma, skilgreint þarfir sínar með þeim afdráttarlausa hætti að furirhuguð gas- og jarðgerðsstöð yrði að geta tekið á móti óflokkuðu heimilissorpi. Þvert á móti bendir allur aðdragandi málsins, og þá sérstaklega fyrrgreindar skýrslur Mannvits, til þess að einingis hafi verið litið á slíkan eiginleika sem hugsnalegan kost sem hefði, ásamt örum atriðum, þýðingu við heildarmat á hagkvæmni.“

Lyktarmengun

Í skýrslu Mannvits segir einnig að Aikan lausnin beri með sér hættu á lyktarmengun. Það er raunar ástæða þess að sambærilegri stöð var lokað í Elverum í Noregi eftir aðeins fjögurra ára starfsemi árið 2011. Viðvarandi lyktamengun hafði þá angrað íbúa um langa gríð. Áður en stöðinni var lokað höfðu mörg hundurð kvartanir borist vegna viðvarandi lyktar. Þrátt fyrir þessa reynslu af tækni Aikan hélt Sorpa því alla tíð fram að lausnin væri sú besta. Svo góð að ekki væri þörf á að fara í útboð enda hefði fyrirtækið einkaleyfi á tækninni. Hjá Aikan a/s fengust þær upplýsingar að fyrirtækið hefði reynt að aðstoða stjórnendur norsku stöðvarinnar en að það hafi ekki gengið eftir. Þá var bent á að lyktarmengun hafi verið til staðar áður en Elverum stöðin hóf innleiðingu Aikan-tækninar.

Kostnaður

Í skýrslu Mannvits um samanburð tæknilausna er gengið út frá að stofnkostnaður hefðbundinnar votvinnslu með 20.000 tonna framleiðslugetu á ári sé um 1,5 milljarðar króna. Það er rúmum milljarði lægra en lausn Aikan sem Sorpa ætlaði sér að fara. „Metanorka furðaði sig á þessum háa kostnaði og leitaði því tilboða í sambærilega lausn,“ segir í athugasemd Gamaþjónustunar og Metanorku til kærunefnar. Þá kemur fram að fyritækið hafi óskað tilboða til samanburðar. „Áætlunartilboð barst frá Xergi, þekktum aðila í Danmörku með áratuga reynslu á þessu sviði, í votvinnslu með 30.000 tonna afkastagetu á ári og sérstökum búnaði til að pressa vökva frá þurrefnishluta áburðarhratsins sem eftir verður þegar vinnslu hins lífræna efnis er lokið. Verð Xergi í 50% afkastameiri stöð (votvinnsluhlutann) en gengið er út frá í skýrslu Mannvits eru tæpar 500 milljónir kr.“ Skýrlsa Mannvits er stimpluð trúnaðarmál af hálfur Sorpu. Hins vegar var Sorpa skikkuð af Kærunefnd útboðsmála til að afhenda kærendum gögn í janúar á þessu ári. Skýrslan sýnir ítrekað að Sorpa hundsaði varnarorð í skýrslu sem samlagið léta vinna fyrir sig.

Sorpa ósátt

Björn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu.
Björn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu.

„Þetta er niðurstaðan og þá verður maður bara að sætta sig við hana,“ segir Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu.

– Niðurstaðan er ekki mjög glæsileg fyrir Sorpu?

„Það breytir eiginlega engu. Glæsileg og ekki glæsileg, við töldum okkur í rétti og við fengum okkur ráðgjöf um þetta mál. Við fengum meðal annars ráðgjöf frá innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar, sem taldi þetta vera rétta leið, eða leið sem væri í lagi. Við töldum okkur vera í rétti allan tíman,“ svarar Björn. Um gagnrýni Environice segir Björn: „Þeir taka bara annan pól í hæðina en við.“

Björn benti á svör Sorpu við skýrslu Environice en var bent á á móti að svörin í því bréfi væru á þá leið að Enviconice hefði rangt fyrir sér en oft án rökstuðnings sagði hann það skoðun blaðamanns. Gagnrýni Environice snýst um að ruslið sem tekið verði við sé ekki nægilega vel flokka. Það leiði til þess að moltan sem til verður við vinnsluna verði menguð, óafsakanlegt verði að nota hana utan urðunarstaða.

Þegar þetta var nefnt sagði Björn: „Afhverju eigum við að flokka þegar við getum búið til jarðvegsbæti sem er í lagi úr þessum úrgangi.“

– Það er auðvitað stefna sveitarfélagana sem eiga Sorpu að auka flokkun?

„Nei að það sé aukin endurvinnsla,“ svarar Björn. „Það að flokka úrganginn í þrjá flokka breytir bara engu um magnið.“

– Það er sérstakt að heyra forstjóra Sorpu tala svona því þetta er stefna sveitarfélagana sem þú vinnur fyrir?

„Það getur vel verið að það sé ákveðin stefna að minnka úrganginn. Tökum önnur lönd sem dæmi. Engu þeirra hefur tekist að ‘koppla’ í burtu hagvöxt versus úrgang. Það að flokka úrganginn í marga flokka er ekki endilega einhver einhlít ákvörðun um að minnka úrganginn.“

– Þú hlýtur samt að stafa í umboði kjörinna fulltrúa?

„Ég starfa eftir stofnsamningi Sorpu, stefnu eigenda, eigendastefnu Sopru, það er það sem ég starfa eftir.“

– Þú telur aukna flokkun ekki vera hluta af þeirri stefnu?

„Jú hún er það. Bláa tunnan sem sett var upp er meðal annars til að auka endurvinnslu. Það hlýtur að vera markmiðið ekki það hvort það er flokka í tuttugu eða þrjátíu flokka. Markmiðið hlýtur að vera að auka endurvinnslu. Markmið sveitarfélagana er að draga úr úrgangi fyrst og endurnýta númer tvö. Endurvinnsla er því þriðja markmiðið. Við sitjum bara í þeim partinum sem er að auka endurvinnslu og minnka urðun.“

Að skrifa breytir engu

Kærunefnd gerir athugasemd við að Sorpa hafi ekki skilgreint þarfir sýnar nægilega vel. „Ég get alveg viðurkennt að kannski fellir það málið að okkar hálfu að við höfum sennilega ekki sett þetta nógu skilmerkilega á blað. Það breytir engu um að krafan er sú saman og áður. Það breyttist ekkert með samsetningu úrgangsins við þessa niðurstöðu,“ segir Björn.

– Breyttist stefna ykkar gagnvart þessu ekkert?

„Það verður þá ekki nema eigendurnir segi okkur að gera eitthvað annað.“

– Þú telur þessa niðurstöðu kærunefndarinnar ekki tilefni til að skoða kúltúrinn innan Sorpu?

„Við leituðum okkar ráðgjafar. Við fengum ráðgjöf frá innkaupastofnun Reykjavíkurborgar. Það er ekki einhver kúltúr innanhúss.“

 

Leiðrétt 01.05.2015

Í umfjölluninni hér að ofan er ranglega farið með nafn Íslenska gámafélagsins ehf. á einum stað. Þar sem segir: „Sorpa var dæmd til að greiða Gámaþjónustunni og Metanorku ehf. eina milljón króna vegna málskostnaðar og hvatt til að uppbyggingin fari í útboð.“

Hið rétta er að Sorpa var dæmd til að greiða Íslenska gámafélaginu, eiganda Metanorku ehf. milljón. Gámaþjónustan ehf. er ekki aðili málsins. Beðist er velvirðingar á mistökunum.

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s