Flytur í ferðatösku

SAM_6683
Grímur Hákonarson á heimaslóðum. Nú bíður ferðataskan en hann fer víða um heim með Hrúta í kjölfar velgengni í Cannes.

„Þetta er í rauninni ótrúlegt. Við gerðum þessa mynd bara algjörlega á okkar eigin forsendum. Vorum bara að hugsa um að gera sveitamynd fyrir Íslendinga, lítil og einföld mynd um einhverja tvo bræður. En einhvern veginn virðist hún hitta í mark,“ segir Grímur Hákonarson, leikstjóri og Kópavogsbúi, sem fagnaði sigri á kvikmyndahátíðinni í Cannes í Frakklandi á dögunum. Þá hlaut mynd hans Hrútar fyrstu verðlaun í flokki frumlegra mynda. 

Hrútar varð hlutskörpust nítján mynda sem tilnefndar voru í flokknum, en alls var sótt um fyrir fjögur þúsund kvikmyndir.

Þetta er í fyrsta sinn í tæplega 70 ára sögu þessarar víðfrægu frönsku kvikmyndahátíðar sem íslensk kvikmynd í fullri lengd vinnur til verðlauna.

Reykjavík vikublað náði tali af Grími skömmu eftir Íslandsfrumsýningu á myndinni, en sú fór fram í bíósalnum að Laugum, skammt frá Bárðardal þar sem myndin var tekin upp.

Trúverðugur sveitaheimur

„Viðtökurnar voru mjög góðar,“ segir Grímur spurður um viðtökurnar en um 150 heimamenn, bændur, sveitarstjórn, aðrir íbúar sem studdu framtakið og ekki síst krakkar úr sveitinni, allt niður í sex ára. „Það var mikið hlegið og klappað, og standandi lófaklapp á eftir,“ segir Grímur sem var að vonum ánægður með viðtökurnar. Hann nefnir sérstaklega ða bændum hafi fundist lýsingin á sveitinni trúverðug, og að það hafi gengið fullkomlega upp að Siggi Sigurjóns væri bóndi.

„Við lögðum upp með að skapa trúverðugan sveitaheim,“ segir Grímur. Hann bætir því við að nokkur rannsóknarvinna hafi legið að baki. Bæði almennt um sveit og bændastörf, en ekki síður um viðbröð við riðuveiki. „Myndin fjallar að hluta til um hvað gerist þegar skera þarf niður fé vegna riðu,“ segir Grímur. „Ég kannski bjóst við að menn gætu eitthvað haft út á þetta að setja, en samt sem áður byggir myndin að miklu leyti á sönnum viðburðum. Allt sem gerist í myndinni hefur í raun og veru gerst. Þannig að þó svo að margt virðist ótrúlegt, þá hefur svona í rauninni gerst.“

„Breytir lífi okkar allra“

– Þetta var mikil sigurför hjá þér og ykkur til Frakklands. Hvernig líður þér að hafa fengið þessa viðurkenningu?

„Þetta var auðvitað alveg ofboðslega góð tilfinning, þegar Isabella Rosselini tilkynnti um sigurvegarann,“ segir Grímur. „Þetta á svo eftir að hafa áhrif á framtíð manns. Bæði er þetta frábært fyrir myndina, en verðlaunin munu líka hafa mikil áhrif á alla sem koma að henni, og breytir í rauninni lífi okkar allra,“ segir Grímur.

Myndin sé tvímælalaust komin á kortið. Fjallað hafi verið um hana í fjölmiðlum um allan heim. „Þetta gerir það að verkum að það verður auðveldara að fá fjármagn í næstu verkefni og býður upp á mikla möguleika fyrir í framhaldinu,“ segir leikstjórinn. Miklir möguleikar séu nú fyrir hendi erlendis, „þótt ég vilji helst vera á Íslandi að gera mína eigin myndir“.

Endurgerð í vændum?

Myndin var sýnd á Laugum fyrir norðan í vikunni og voru viðtökur ekki síðri en í Cannes. Hér má sjá f.v. Jón Friðrik Benónýsson, Guðrún Sveinbjörnsdóttir, Teodór Júlíusson, Grímur Hákonarson, Sigurður Sigurjónsson og Grímar Jónsson fyrir utan Laugabíó. Mynd: 641.is/Hermann Aðalsteinsson.
Myndin var sýnd á Laugum fyrir norðan í vikunni og voru viðtökur ekki síðri en í Cannes. Hér má sjá f.v. Jón Friðrik Benónýsson, Guðrún Sveinbjörnsdóttir, Teodór Júlíusson, Grímur Hákonarson, Sigurður Sigurjónsson og Grímar Jónsson fyrir utan Laugabíó.
Mynd: 641.is/Hermann Aðalsteinsson.

„Það er strax farið að tala um að endurgera Hrúta, þótt ég sé ekki viss um að það sé sniðugt,“ segir Grímur og nefnir að áhugi sé á því í Sviss og jafnvel víðar. „En mér finnst Hrútar vera íslensk saga. Þessi sterka tenging við sauðkindina sem myndin fjallar um finnst mér vera séríslensk, og líka þessi brjálæðislega þrjóska, að talast ekki við í 40 ár, þrátt fyrir að búa hlið við hlið,“ bætir hann við.

Margir útlendingar hafi spurt sig hvernig svona gæti gerist. „Eins skýringin sem ég hef, er eitthvert séríslenskt hugarfar. Það er einhver Bjartur í Sumarhúsum hér á ferðinni.“

Línudans

Svona verk er ekki hrist fram úr erminni. Bæjarblaðið Kópavogur ræddi við Grím fyrir tæpum tveimur árum. Þá var handritið skrifað og myndin komin langt í undirbúningi en tökurnar eftir. Nú hafa viðtökurnar við lokaarfurðinni verið stórkostlegar. En hvernig voru viðtökurnar við hugmyndinni á sínum tíma?

„Við fengum alltaf stuðning frá Kvikmyndamiðstöð og þar á bæ var fólk hrifið af hugmyndinni. En kannski fannst mér sjálfum stundum þegar ég var að segja frá hugmyndinni, tveir bræður á sjötugsaldri í einhverjum afdal sem talast ekki við, að þetta gæti hljómað dálítið „boring“ en þó ekki. Það sem kemur okkur kannski mest á óvart er hvað mikið var hlegið. Hvað fólki finnst myndin skemmtileg og fyndin. Þetta er ekki bara eitthvert drama. Hún hefur skemmtanagildi.“

– Það hefur verið þannig að kvikmyndaelítan þarna úti hefur ekki hlegið á vitlausum stöðum?

„Gagnrýnendur segja að styrkur myndarinnar sé að hún dansi á þessari línu að vera bæði mjög fyndin og líka dramatísk,“ segir Grímur. Hún fari einmitt hvergi yfir strikið, hvorki í gríni né drama. Fólk bæði gráti og hlægi. „Svo finnst fólki myndin spennandi,“ bætir Grímur við. Hann vill eðlilega ekki láta uppi hvað gerist, „en atburðarrásin er spennudrifin,“ segir leikstjórinn leyndardómsfullur.

En það var annað sem kom honum á óvart.

„Ég bjóst kannski ekki alveg við því en krakkar, kannski alveg frá sex ára aldri hafa líka mjög gaman af myndinni. Það var kannski ekki alveg það sem ég lagði upp með í mynd um tvo bræður á sjötugsaldri,“ segir Grímur og það heyrist í gegnum símann að stutt er í brosið.

Cannes – Bárðardalur

Þegar blaðamaður ræðir við Grím hefur myndin verið sýnd á tveimur stöðum. Í Cannes innan um stjörnur og kvikmyndaelítu heimsins, og svo hjá heimafólki í Bárðardal. Var mikill munur á viðtökunum? Já og nei, er svar leikstjórans. „Það er í raun og veru það alveg sama uppi á teningnum. Fólk hlær á réttum stöðum,“ segir hann og bætir við að bransafólkið ytra hafi kannski pælt svolítið í fræðilegum eða tæknilegum hlutum, en svo hafi líka bóndi úr Bárðardalnum gert athugasemd við eitt hljóðklipp, svo kannski sé munurinn minni en ætla mætti í fyrstu.

Flutt í ferðatöskuna

En hvað er þá framundan hjá Grími Hákonarsyni? Hann segist eiga gott sumarfrí, en ekki er annað að heyra en að það fari í vinnu. Til stendur að hefja vinnu við nýtt handrit. En síðan eru fleiri járn í eldinum. „Svo er ég að gera mynd um sósíalista á Neskaupstað sem ég er byrjaður að taka,“ segir Grímur. Myndin um „Litlu Moskvu“ hefur verið í vinnslu hjá honum um skeið en Grímur segir mjög áhugavert að fjalla um bæinn fyrir austan sem stýrt var af sósíalistum í hálfa öld „meðal Ísland var allt helblátt,“ bætir hann við hlæjandi.

Ljóst er hins vegar, að Hrútar munu eigna sér megið af tíma leikstjórans næstu mánuðina og jafnvel misserin. „Þegar líður á hausið þá fer hátíðarrúnturinn að byrja og ég verð væntanlega í ferðatösku tvö árin,“ segir Grímur. Hann muni fylgja myndinni eftir á hátíðum og svo á frumsýningum vítt og breitt um heiminn á milli og eftir það. „Þannig að ég þarf kannski að venja mig á að geta bara unnið í flugvélum og svona.“

Hitti í mark

Spurður um fjárhagslegu hliðina og hvort krónurnar fari nú ekki að streyma í kassann, þá segir Grímur að framtíðin muni skera úr um það. Myndin hafi selst vel og verði sýnd um allan heim. Aðstandendur muni njóta góðs af því. En í verðlaunum felist ekki síst virðing. „Þetta er rós í hnappagatið og vekur jú athygli á mér sem leikstjóra en hefur vitaskuld líka markaðslegt gildi.

„Þetta er í rauninni ótrúlegt. Við gerðum þessa mynd bara algjörlega á okkar eigin forsendum. Vorum bara að hugsa um að gera sveitamynd fyrir Íslendinga, lítil og einföld mynd um einhverja tvo bræður. En einhvern veginn virðist hún hitta í mark.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s