Átakafundur í Seljakirkju varðandi ónæði frá íbúðakjarna

Jóna Björg Sætran, varaborgarfulltrúi og fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í mannréttindaráði.
Jóna Björg Sætran, varaborgarfulltrúi og fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í mannréttindaráði.

Miðvikudagskvöldið 20.5.2015, var haldinn mjög sérstakur og átakamikill íbúafundur í Seljakirkju í Breiðholti. Þar mættu um 200 manns í von um svör borgaryfirvalda vegna óljósra frétta um breytta starfsemi íbúðakjarnans Rangárseli 16 – 20. Þar var áður íbúðavalkostur fyrir hreyfihamlaða sem vildu búa sjálfstætt en þurftu aðstoð við daglegt líf. Sú starfsemi gekk vel, miðsvæðis og stutt í falleg útivistarsvæði þar sem börn, fullorðnir og aldraðir njóta veðursældar á góðviðrisdögum. Þarna eru tveir grunnskólar, tvær kirkjur, félagsmiðstöð, tveir leikskólar, skólasundlaug, dvalarheimili fyrir aldraða og íþróttahús. Mikil gangandi umferð barna, unglinga og fullorðinna.

Allt í einu verða nágrannar íbúðakjarnans fyrir ýmsu ónæði og upplifa ógnandi framkomu nýrra íbúa íbúðakjarnans við heimili sín. Hvað er að gerast? Í hvað stefnir? Geta börnin verið örugg, ein úti að leik? Hvers vegna er lögreglan mætt á svæðið? Margar spurningar vöknuðu en fátt var um svör af hálfu þeirra sem haft var samband við hjá Reykjavíkuborg sem hafði fest kaup á íbúðakjarnanum og breytt starfseminni. Í ljós kom að þarna væri nú íbúðaúrræði fyrir fólk með samþætta fötlun, mögulega umtalsverðar geðraskanir og hegðunarvanda, líka fyrir einstaka einstaklinga sem þyrftu sólarhringsgæslu starfsmanns. Í fjölþættu samfélagi þarf vissulega að vera rými fyrir íbúðaúrræði fyrir einstaklinga sem vegna fötlunar sinnar geta ekki búið sjálfstætt, einir, óstuddir og án eftirlits, en í þessu tilviki má deila um hvernig staðið var að málum.

Hin nýja og breytta starfsemi íbúðakjarnans mun vera á umsjónarsviði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og því miður virðist vera sem þar hafi nokkuð verið kastað til höndum til verksins. Engar kynningar voru t.d. á breyttri starfsemi eða önnur upplýsingagjöf til næstu nágranna því slíkt er óþarft þar sem skipulagsbreytingar sem þessar falla ekki undir ákvæði um grenndarkynningu.

Það var því ekki að undra að fólkið í hverfinu tók á það ráð að boða til fundar í Seljakirkju til að geta spurt frétta. Þrír fulltrúar á vegum borgarinnar mættu á fundinn vegna íbúðakjarnans; hverfisstjóri Breiðholts, nýr umsjónarmaður íbúðakjarnans og formaður velferðarráðs. Öll stigu þau í ræðustól í Seljakirkju en skildu því miður eftir sig enn fleiri spurningar en svör. Þeir nágrannar íbúðakjarnans sem lýstu því ónæði sem þeir upplifðu fengu skömm fyrir frá fulltrúum borgarinnar. Hinsvegar óskuðu fulltrúar borgarinnar eftir góðu samstarfi við hverfisbúa og að nýjum íbúum íbúðakjarnans yrði gefinn tími til að aðlagast nýjum aðstæðum. Einn fulltrúa borgarinnar stakk m.a. upp á nágrannavörslu af hálfu íbúanna í næsta nágrenni. Tillagan um nágrannavörsluna féll vægast sagt í grýttan jarðveg fundarmanna og vakti bæði undrun og hneykslan.

Það hitnaði fljótt í kolunum þarna á fundinum þegar fulltrúar borgarinnar ásökuðu fundargesti hvað eftir annað um að vera með fordóma gagnvart nýju íbúunum og starfsemi íbúðakjarnans, að fólk mætti með fyrirfram ákveðnar skoðanir og að tilgangur fundarins væri að tala niður til fólks með samþætta fötlun, fólks sem ætti við erfiðleika að stríða. Þessum röngu fullyrðingum var einnig haldið á lofti í blaðaviðtölum í kjölfar fundarins og er það miður því þessar fullyrðingar eru alrangar og ef einhverjir fordómar voru viðraðir á fundinum í Seljakirkju þá var það ekki af hálfu íbúa hverfisins heldur öllu frekar af hálfu fulltrúa borgarinnar. Það er skiljanlegt að hverfisbúar vilji fá skýr svör borgaryfirvalda. Það getur t.d. engan veginn talist eðlilegt og sjálfsagt að einstaklingar sem búsettir eru í íbúðakjarna á vegum borgarinnar og eiga að hafa sólarhrings gæslu, ráfi um næsta nágrenni einir og án eftirlits með hátterni og framkomu sem fullorðnir ekki síður en börn upplifa sem ógnandi. Slíkt á ekki að líðast hvorki á róluvelli barna, í húsagörðum nágranna eða á útivistarsvæðum þar sem börn eru iðulega að leik en þetta eru því miður dæmi um. Áberandi aðkoma lögreglu til að sækja órólega íbúa íbúðakjarnans er einnig líkleg til að vekja spurningar.

Í fjölmiðlum var einnig harðlega gagnrýnt að fundurinn var haldinn í Seljakirkju en slík gagnrýni á ekki rétt á sér. Margir íbúar í Seljahverfi komu að uppbyggingu kirkjunnar á sínum tíma og unglingarnir í hverfinu lögðu sitt af mörkum í kirkjuklukkusjóðinn, kirkjan átti alltaf að nýtast fyrir söfnuðinn, fólkið átti að eiga þar athvarf með sín mál. Þetta hefur gengið eftir og ef þeir sem hafa gagnrýnt val fundarstaðarins geta ekki sætt sig við það þá er það þeirra vandi en ekki fundargesta.

Í nútíma samfélagi er vissulega þörf á því að gera sem flestum kleift að búa við heimilislegar og notalegar aðstæður. Það er einnig jákvætt að vinna að blandaðri uppbyggingu íbúðakjarna og leyfa flóru mannlífsins að njóta sín sem best en það þýðir hins vegar ekki að ana af stað í framkvæmdir án þess að hugsa þær til enda. Ef líkur eru á að öryggi íbúa íbúðakjarna, fólks með verulega samþætta fötlun eða nágranna þeirra, barna sem fullorðinna, sé á einhvern hátt ógnað utan dyra íbúðakjarnans, þá þarf að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir slíkt áður en að starfsemin hefst. Það þýðir ekki fyrir fulltrúa borgarinnar að hrópa ókvæðisorð að fundarmönnum úr ræðustól og skamma þá fyrir að taka ekki tillit til mannréttinda íbúa íbúðakjarnans. Slíkt er ekki til framdráttar því sem reynt er að gera til hagsbóta fyrir einstaklinga sem þurfa sérstök úrræði. Það þýðir heldur ekki að skýla sér á bak við persónuvernd og að hverfisbúum komi ekkert við hverjir búi í íbúðakjarnanum, hvers konar samþætta fötlun sé um er að ræða eða hverju megi eiga von á. Hér var verið að ræða það sem gerist utan dyra en ekki innan þeirra.

Sjálf er ég búsett í Seljahverfi og mætti þarna ekki síst sem íbúi í hverfinu en sem varaborgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina er mér einnig annt um öryggi og friðsæld í þessu hverfi sem öðrum borgarhlutum. Hér er ég ekki aðeins að tala um öryggi fárra – heldur allra, vissulega líka fólks með fjölþættar greiningar eða samþætta fötlun. Ég vona að fundin verði farsæl lausn á þessum vandamálum sem allra fyrst og að fulltrúar borgarinnar láti af yfirlýsingum og ásökunum í garð fundarmanna sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.

Jóna Björg Sætran
varaborgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina
situr í skóla- og frístundráði og situr í mannréttindaráði.

 

 

 

 

Ein athugasemd við “Átakafundur í Seljakirkju varðandi ónæði frá íbúðakjarna

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s