Verum næs

Dóra Magnúsdóttir, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar
Dóra Magnúsdóttir, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar

Rauði krossinn fór nýlega af stað með aldeilis frábært verkefni sem ber heitið „Vertu næs“ (www.vertunaes.is). Um er að ræða tveggja ára verkefni sem hvetur fólk til að koma fram að virðingu við hvort annað og leggur áherslu á að uppruni fólks, litarhaft eða trúarbrögð eiga ekki að skipta máli í samskiptum við hvort annað (www.vertunaes.is).

Verkefnið er frábært en um leið er það svolítið dapurlegt til þess að hugsa að koma þurfi á verkefnum til að vekja fólk til umhugsunar um að vera vingjarnlegur við náungann, óháð uppruna, litarhafti eða trúarbrögðum.

Verkefnið fékk mig til að hugsa um fleiri þætti í okkar litla og oft reiða samfélagi. Og hvað við megum oftar vera næs við fólk í kringum okkur. Nýjar kannanir benda sem betur fer til þess að Íslendingar séu almennt viðkunnanlegir við erlenda ferðamenn þó svo að töluverðs pirrings gæti stundum vegna til dæmis umferðaraukningar sem þeir valda, stundum finnst fólki helst til mikið af þeim og að vondar túristabúðir hafi sprottið upp vegna þeirra (sumsé, lundasjoppur). Það er merkileg tilhneiging, allt að því rasísk, hvað maður heyrir oft talað um „ túrista“ í neikvæðum tóni. Samt er þetta bara venjulegt fólk eins og við; eini munurinn er sá að þetta fólk er ekki heima hjá sér heldur í heimsókn hjá okkur. Jú, það er reyndar yfirleitt klætt í útivistarfatnað í miðbænum, líka í góðu veðri. Og fyrir vikið er stundum eins og heimamönnum finnist í lagi að tala niður til þeirra og vera ekki næs.

Við megum líka alveg vera meira næs í umferðinni. Stundum er eins og fólk flykkist í fylkingar skv. ferðmáta. Gangandi, hjólandi, akandi og í strætó og allir óvinir. Gangandi upplifa ógnun frá hjólandi og öllum sem leggja upp á stétt, hjólandi upplifa ógnun frá akandi og allir á hnefanum að komast sína leið. Auðvitað er þetta ekki alveg svona hábölvað en ef allir eru aðeins meira næs út í umferðinni og taka tillit þá gengur borgarlífið betur fyrir sig. Þessi sýn byggir á því að við viðurkennum rétt allra til að ferðast eins og þeir vilja, gangandi, hjólandi, akandi og með Strætó; að akandi sætti sig við að sumstaðar eru ekki hjólreiðastígar og að hjólandi þurfa stundum að nota göturnar. Að hjólandi virði alltaf umferðarreglur, sérstaklega rauð ljós, stöðvunarskyldu, lýsingu á veturnar og þar fram eftir götunum. Að gangandi gangi ekki á hjólastígum og svo framvegis.

Nýlega húðskammaði yngsta þingkona Alþingis þingheim fyrir ókurteisi. Að hennar mati er fólk greinilega ekki mjög næs samskipti á þessum vinnustað. Þetta viðhorf gegnsýrir reyndar stjórnmálaumræðuna almennt á Íslandi. Það er stundum eins og fólki finnist í lagi að kalla annað fólk aumingja og hálfvita fyrir það eitt að vera flokksbundinn flokki sem maður er ekki sáttur við. Stundum virðist vera í lagi að úthúða fólki með persónulegum dónaskap og níði fyrir það eitt að vera á öndverðum meiði í ýmsum málum. Sem þó er grundvöllur þess að búa í samfélagi þar sem lýðræði er virt og heiðrað; þ.e. að geta skiptst á skoðunum og virt skoðanir annarra – og verið næs á sama tíma.

Nú kann að hljóma eins og ég sé að setja mig hér í hásæti þess sem er alltaf hrikalega næs. En það er ég svo sannarlega ekki. Ég hef alveg öskrað á hálfvita í umferðinni (inní bílnum mínum samt, sko) tuddast áfram á hjólinu mínu á rauðu ljósi. Svo horfi ég stundum á fólk sem beinlínis gengur á hjólreiðastígum borgarinnar með drápsglampa í augum. Ég reyni að hemja mig t.d. á Facebook gagnvart þeim sem ég er ósammála í þjóðfélagsumræðunni en ekki (alltaf) heima hjá mér. Ég er því kannski bara að skrifa þennan pistil til sjálfrar mín. Og allra hinna sem mega alveg við því að sýna meira umburðarlyndi og oftar. Og bara vera næs.

Dóra Magnúsdóttir

Varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s