Marklaus loforðaflaumur ríkisstjórnarinnar

Kvennastéttir á Landspítalanum sinna mikilvægum störfum allan sólarhringinn, allan ársins hring. Ekki er að sjá að þeim hafi nokkurn tímann staðið til boða þær dásemdir sem ráðherrar lofuðu í tengslum við læknasamningana.
Kvennastéttir á Landspítalanum sinna mikilvægum störfum allan sólarhringinn, allan ársins hring. Ekki er að sjá að þeim hafi nokkurn tímann staðið til boða þær dásemdir sem ráðherrar lofuðu í tengslum við læknasamningana.

Eftir Atla Þór Fanndal

atli@thorfanndal.com

Glatt var á hjalla í janúar þegar þrír ráðherrar, þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Illugi Gunnarsson þá starfandi fjármálaráðherra, undirrituðu yfirlýsingu, ásamt fulltrúum Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands, um framtíðar uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Ástæða var til bjartsýni enda yfirlýsingin hluti af farsælli lausn á kjaradeilu lækna. Um leið boðuðu ráðherrarnir milljarða hækkun í árlegu framlagi til heilbrigðismála, markvissa endurnýjun tækjabúnaðar, nýjan landsspítala og starfskjör í samræmi við það sem heilbrigðisstarfsmenn búa við annars á norðurlöndum. Fjárskortur, bág starfskjör og lélegur tækjabúnaður skyldu nú heyra sögunni til.

Flugeldasýning

Milljarðayfirlýsing ráðherranna var loforð út í loftið. Ekkert fé var eyrnamerkt framgangi hennar auk þess sem loforðin sem ráðherrarnir þrír gáfu ganga beinlínis gegn markmiðum stjórnarflokkanna um minnkandi hlutfall samneyslu af þjóðarframleiðslu. Stjórnarmeirihlutinn útlistar markmið skattalækkana og minnkandi hlutfalls samneyslu í stjórnarsáttmála sínum. Hér á landi eru heilbrigðsútgjöld langsamlega sá stærsti meðal reglulegra útgjaldaliða ríkisins.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mælti fyrir lögum sem réttlætt voru með neyðarástandi á heilbrigðisstofnunum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mælti fyrir lögum sem réttlætt voru með neyðarástandi á heilbrigðisstofnunum.

Efasemdir um að flugeldasýningin væri eitthvað annað en flugeldasýning voru endanlega jarðaðar með lagasetningu laugardaginn 13. maí þar sem verkfallsréttur átján stéttarfélaga var afnuminn. Þar á meðal eru hjúkrunarfræðingar og mikilvægir heilbrigðisstarfsmenn. Lögin gera ráð fyrir að Hæstiréttur skipi þriggja manna gerðardóm sem ákveði kaup og kjör meðlima félaganna átján. Við ákvörðunina skal gerðardómur hafa starfskjör og samninga sambærilegra stétta til hliðsjónar en engann veginn blasir við að kjarasamningar lækna verði hafðir með til viðmiðunar, enda eru í lögunum skýr ákvæði um að kjaradómur Hæstaréttar taki mið af samningum sem gerðir voru eftir 1. maí á þessu ári og almennri launaþróun, auk þess að „gæta að stöðugleika efnahagsmála“. Skýrt hefur komið fram í máli ráðamanna hvað það merkir. Þetta er skýrt í athugasemdum með frumvarpinu þar sem segir:

„Launakröfur þessara félaga eru langt umfram þær launahækkanir sem samið var um við stærstan hluta almenna vinnumarkaðarins 29. maí sl. Augljós hætta er á að launahækkun til félagsmanna BHM og FÍH, umfram það sem þegar hefur verið samið um á almennum vinnumarkaði, hafi neikvæð áhrif á aðra kjarasamninga og stöðugleika á vinnumarkaði. Brýnt er að launastefna hins opinbera komi ekki af stað gamalkunnum víxlhækkunum verðlags og launa sem aftur hefðu í för með sér aukna verðbólgu og rýrnun kaupmáttar. Þessu frumvarpi er ætlað að treysta forsendur stöðugleikans.“

Í þeim „stöðugleika“ er því efnislega fólgið að öðrum starfsmönnum heilbrigðiskerfisins – einkum kvennastéttum – er með lögum bannað að fá viðlíka kjarabætur og samið var um við lækna.

Marklausir ráðherrar

Þrír ráðherrar undirrita viljayfirlýsinguna með milljarðarloforðunum ásamt fulltrúum læknafélaganna.
Glatt á hjalla. Þrír ráðherrar undirrita viljayfirlýsinguna með milljarðarloforðunum ásamt fulltrúum læknafélaganna.

Í yfirlýsingunni segir meðal annars: „Heilbrigðiskerfið búi við sambærilegan ramma hvað varðar fjármuni og fjölda starfsmanna og önnur Norðurlönd að teknu tilliti til sérstöðu Íslands hvað varðar mannfjölda og staðhætti.“ Samkvæmt skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, var um 9 prósentum af vergri landsframleiðslu kostað til heilbrigðismála hér á landi árið 2012. Það er örlítið lægra hlutfall en í Finnlandi en Ísland er það ríki á Norðurlöndum sem ver hvað minnstu fé til heilbrigðismála, þegar miðað er við landsframleiðslu. Hlutfallið er hæst í Danmörku, um 11%. Árið 2013 gaf Krabbameinsfélagið út skýrslu um greiðsluþátttöku krabbameinssjúklinga í rekstri heilbrigðiskerfisins. Í skýrslunni er stuðst við tölur frá 2011 og bent á að ætli Íslendingar sér að setja sambærilegt framlag til heilbrigðismála og Danir verði að koma til 34 milljarða aukaframlag ár hvert miðað við stöðuna eins og hún var þá. Sé miðað við Noreg myndi loforðið leggjast á um tíu milljarða í viðbótarframlög á ári hverju. Þá gera áætlanir ráð fyrir að nýr landsspítali kosti um 50 milljarða auk þess sem yfirlýsingin viðurkennir að fámenninu hér á landi verði að mæta með viðbótarfjármagni enda sé ekki hægt að gera ráð fyrir stærðarhagkvæmni sambærilegu við fjölmennari Norðulönd. Björn Zoëga, læknir og fyrrverandi forstjóri Landspítala, er verkefnastjóri Betri heilbrigðisþjónustu sem vinnur vinnur að markmiðum yfirlýsingarinnar. Hjúkrunarfræðingar óskuðu þess í kjaraviðræðum að yfirlýsingin yrði til viðmiðunar við kjarasamninga og að hjúkrunarfræðingar fellu undir markmið hennar. Það kom ekki til greina að hálfu ríkisins.

Áróðursplagg frá upphafi

Yfirlýsingu ráðherranna og læknafélaganna má sækja í tengsli hér til hliðar.
Yfirlýsingu ráðherranna og læknafélaganna má sækja í tengsli hér til hliðar.

Strax við undirritun yfirlýsingarinnar mátti greina að ekki stóð til að standa við stóru orðin. Formlega er fjárlagavald í höndum Alþingis en almenningur á að geta gert þær væntingar til ráðherra og ríkisstjórnar að eitthvað sé að marka yfirlýsingar, orð og loforð. Engin merki eru um að ráðherrarnir þrír hafi leitað til Alþingis svo tryggja megi framgang loforðanna. Spurður um  hvort sú hækkun sem læknar fengu í sínum kjarasamningum komi til með að hafa áhrif á kjarasamninga sem fylgdu eftir læknasamningum sagði forsætisráðherra við Vísi að um hafi verið að ræða sérstakar aðstæður sem bregðast hafi þurft við. Ekki sé forsenda til slíkra hækkana í þeim kjarasamningum sem á eftir fylgi þar sem það geti valdið verðbólgu.

Meiri útgjöld en minni skattar

Þá vekur athygli að þótt lofað sé sambærilegum fjárlagaramma, launum og starfskjörum og á Norðurlöndum er lögð áhersla á að festa í sessi „þá stefnu sem mörkuð var í fjárlögum ársins 2014.“ Í loforðaflaumi þeirra fjárlaga var forgangröðun í þágu heilbrigðiskerfisins borin á borð. Um leið er um að ræða fjárlög sem gagnrýnd voru vegna þess hve áfjáður stjórnarmeirihlutinn hafði verið við að afþakka tekjur til handa samneyslunni. Ríkisstjórnarmeirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks afþakkaði 23 milljarða af fyrirhugaðri tekjuöflun á fyrstu hundrað dögum ríkisstjórnarsamastarfsins. Það er eitt meginstef þeirrar stefnumótunar sem birtist í fjárlögum 2014 og samstarfssamnings flokkanna sem boðar lækkun samneyslu sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Í lok maí, örfáum mánuðum eftir milljarða loforðin, boðaði ríkisstjórnin svo skattalækkanir til að liðka um fyrir saminga VR og Samtaka atvinnulífsins. Þær skattalækkanir kosta um 15 – 17 milljarða. Útspil sem þrengdi enn frekar getu yfirvalda til að semja við opinera starfsmenn.

Gengur ekki upp

Screen Shot 2015-06-20 at 11.13.49 AMHeilbrigðis- og velferðarútgjöld árið 2014 voru 264 milljarðar af 625 milljarða fjárlögum. Það þýðir að um 42% ríkisútgjalda eru til heilbrigðis- og velferðarútgjalda. Þar er launakostnaður stærstur hluti. Yfirlýsingin er því í beinni andstöðu við stefnumótunina sem hún á að fylgja. Samstarfssamningur flokkanna boðar lækkun ríkisútgjalda, skattalækkanir en svo er lofað auknum framlögum til langsamlega stærsta útgjaldaliðsins. Í yfirlýsingunni er boðuð útgjaldaaukning upp á tæpa hundrað milljarða fyrst um sinn en svo tugi milljarða ár hvert. Þá segir að launakjör og starfsaðstæður og fjöldi starfsfólks verði í samræmi við önnur Norðurlönd í viðleitni til að kerfið verði samkeppnishæft við nágrannalöndin.

Þá segir að „opna [þurfi á] möguleika á fjölbreyttum rekstrarformum sem byggja á virkri þjónustu- og verkefnastýringu, skýrum gæðakröfum samhliða jafnræði í greiðslum óháð rekstrarformi.“ Það er að einkavæða skuli rekstur heilbrigðisþjónustunar umfram það sem nú er. Mögulegt væri að ná því fjármagni sem upp á vantar með auknum notendagjöldum. Í dag greiða notendur heilbrigðisþjónustu um fimmtung kostnaðar úr eigin vasa. Sé ætlun yfirvalda að ná fram fjárhagsramma í samræmi við Norðurlöndin með þeim hætti yrði um að ræða milli 10 til 34 milljarða, umfram það sem nú er, úr vösum sjúklinga ár hvert. Það yrði tvöföldun á beinni gjaldtöku frá því sem er í dag.

Lagasetning

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mælti fyrir lögum um bann við verkfallsaðgerðum félaga BHM og hjúkrunarfræðinga. Lagasetningin er nokkuð harkaleg enda sett lög á fjölda félög sem ekki eru í verkfallsaðgerðum. BHM – Bandalag Háskólamanna hefur þegar boðað málsókn á hendur ríkisins vegna lagasetningarinnar. „Verkfallsaðgerðir félaga innan Bandalags háskólamanna höfðu staðið í tæpar 10 vikur í gær. Það er umhugsunarvert að ríkisvaldið gerði ekkert til þess að afstýra verkföllum. Í stað þess að ganga til samninga við BHM dró ríkið bandalagið fyrir dómstóla í því augnamiði að hnekkja verkfallsboðunum. Þeim kröfum hafnaði Félagsdómur með eftirminnilegum hætti. Á 24 samningafundum deiluaðila hjá Ríkissáttasemjara þokaðist samninganefnd ríkisins aldrei frá forskrift Samtaka atvinnulífsins,“ segir í yfirlýsingu félagsins.

Lög á verkfallsrétt

Frumvarp Sigurðar Inga sem sviptir BHM og hjúkrunarfræðinga verkfallsréttinum er í fjórða sinn sem núverandi ríkisstjórn beitir lagasetningu á kjaradeilur. Í mars 2014 voru lög sett á verkfall starfsmanna Herjólfs og nokkru síðar voru sett lög á verkfall flugmanna hjá Icelandair. Þá var þing kallað saman í júní sama ár í þeim tilgangi að setja lög á verkfall flugvirkja sem þá aflýstu verkfallinu. Frá árinu 1985 hefur löggjafinn stöðvað 14 vinnudeilur með lagasetningu. Þetta kemur fram í umfjöllun Gylfa Dalmanns Aðalsteinssonar, dósents á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands.

90 – 180% munur á meðallaunum

Í samantekt á kröfugerð hjúkrunarfræðinga kemur fram að launamunur milli hjúkrunarfræðinga og lækna sé nú rúmlega 90% sé miðað við dagvinnulaun. Sá munur hafi verið 54% árið 2014. Þá kemur fram að eftir samninga við lækna sé mismunur á dagvinnulaunum skurðlækna og hjúkrunarfræðinga 144%. Sé litið til heildarlaun verður munurinn hins vegar 178%. „Ljóst er að kröfur hjúkrunarfræðinga snúast ekki eingöngu um beinar launahækkanir heldur einnig atriði sem snúa að vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga og öðrum atriðum sem snerta daglega vinnu hjúkrunarfræðinga. Ekki hefur fengist efnisleg umræða við Samninganefnar ríkisins um þessi mál,“ segir í samantekt FÍH. „Fíh hefur lagt fram ýmis töluleg gögn um laun og launaþróun hjúkrunarfræðinga sem rökstuðning fyrir kröfum sínum. Í þessum upplýsingum telur FÍH sig geta sýnt fram á að þrátt fyrir að launaþróun hjúkrunarfræðinga hafi verið góð síðastliðin ár þá sé og hafi verið umtalsverður launamunur eða 14-25% á launum hjúkrunarfræðinga og annarra háskólastétta. Þá hafa laun hjúkrunarfræðinga í upphafi mælinga þegar tekin er núllstaða á launavísitölu verið með þeim hætti að hækkun hefur skilað sér með umtalsvert lægri krónutölu en til annarra stétta.“

Uppsagnir

Í kjölfar lagasetningar hafa hjúkrunarfræðingar sagt upp störfum tugum saman, bæði á Landspítala og öðrum heilbrigðisstofnunum. „Hjúkrunarfræðingar munu ekki sætta sig við þetta,“ segir Ólafur G. Skúlason, formaður FÍH, við Reykjavík vikublað. „Ég heyri það alveg á hópnum en ég fæ engar tölur um hversu margir eru búnir að segja upp. Uppsagnir eru ekki á vegum félagsins. Þetta er bara ákvörðun hvers og eins,“ segir Ólafur. „Ég heyri samt alveg að fólk er að meina þetta. Fólkið sem er búið að segja upp ætlar bara að hætta. Það nennir þessu ekkert.“

 

Smelltu hér til að lesa meira úr Reykjavík vikublaði.

Ein athugasemd við “Marklaus loforðaflaumur ríkisstjórnarinnar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s