Veikindaréttindi: Aldrei geta sumir draumar ræst

Ásta Helgadóttir
Ásta Helgadóttir

Afi minn var berklasjúklingur. Hann var á berklahæli, þar sem hann lærði að prjóna sokka og spila á gítar. Afi veiktist sem barn, þegar hann gekk í skóla á Húsavík og var sennilega að læra margföldun og dönsku, eflaust að lesa einhverjar bókmenntir líka.

Það var hinsvegar ekki mikið um tónmennt í skólanum a þeim tíma, enda var það eitthvað sem hann tók síðar meir ástfóstri við og kenndi heilli kynslóð Þingeyinga að spila, misvel, á blásturhljóðfæri og önnur tilfallandi hljóðfæri. Ekki síst vegna þess að hann eyddi tveimur árum á berklahæli, þar sem lítið var að gera nema að prjóna sokka af gamla laginu og að læra á gítar, sem breytti lífinu hans og afkomenda hans gífurlega.

Það var kennslukonan á Húsavík sem smitaði bekkinn af berklum.

Nálega allir í bekknum hans veiktust alvarlega af berklum og það voru tveir sem náðu aldrei að sjá rofa fyrir fullorðinsárunun, heldur sáu sólarlag lífsins alltof snemma. Eins og svo margir sem veiktust þá og nú af berklum.

Þetta er fólk sem hefði annars fengið að vaxa úr grasi og fengið að kenna heilum kynslóðum eitthvað um lífið og tilveruna. Sumir hefðu kannski orðið skáld eða arkitektar, prestar eða pólitíkusar. Lífi þeirra lauk langt fyrir aldur fram, og það var með söknuði sem afi minn útskýrði fyrir mér að það hafi verið kennslukonan sem hafði mætt veik og smitað allan bekkinn.

Hún dó úr berklum.

Fjarvera opinberra starfsmanna

Þegar farið er að skrifa fréttir um að „rífleg veikindaréttindi auka fjarveru frá vinnu“ þá þarf aðeins að staldra við. Enn frekar, svo ég vitni í frétt Vísisf eftir Kristján Má Unnarsson:

„Fjarvera opinberra starfsmanna vegna veikinda er tvöfalt meiri hérlendis en meðal starfsmanna á einkareknum vinnustöðum.“

Þessi staðhæfing stingur svolítið. Því þarna er annarsvegar verið að ýja að því að opinbert starfsfólk hafi það mjög gott. Hinsvegar, er verið að ýja að því að opinbert starfsfólk er að vinna minna og taka meira út í veikindaleyfum.

Þessar tölur sem vísað er til í fréttinni gætu líka bent á að fólk er almennt meira veikt, og að veikindaleyfi innan einkageirans eru ófullnægjandi.

Þessar tölur gætu gefið til kynna að fólk veikist siður innan einkageirans af einhverjum ástæðum, svo sem vegna starfsánægju, vegna þess að það umgengst færra veikt fólk að meðaltali og svo framvegis.

Þessar tölur gætu líka gefið til kynna ónægju meðal fólks sem vinnur hjá hinu opinbera – því líður ekki vel í vinnunni og veikist því frekar.

Breyturnar eru fjölmargar og það þarf töluvert meira til þess að skýra hver er í raun ástæða þess að opinberir starfsmenn nota fleiri veikindadaga heldur en starfsmenn i einkageiranum.

Hvenær er maður veikur?

Og hvenær er maður ekki veikur? Fjandi hafi það, ef maður er veikur, þá er maður veikur.

Opinberir starfsmenn eru til dæmis hjúkrunarfólk, læknar, kennarar, leikskólakennarar, skólaliðar og önnur umönnunarstörf. Þetta er fólkið sem annast fólkið okkar sem er hvað veikast fyrir, þarf ekki mikið út á að bregða að þessir einstaklingar verði veikir, kannski veikari en annað fólk með betra ónæmiskerfi.

Það er hagur okkar allra að þessar starfsgreinar hafi ríkuleg og stöðug veikindaleyfi. Það er heilbrigðara fyrir spítalana að keyra ekki á veiku fólki ofan í allt hitt veika fólkið. Það er betra að kennararnir okkar hafi réttinn til þess að vera veikir heima sé þess þörf. Jafnvel þótt það séu ríkulegri veikindaréttindi heldur en í einkageiranum.

Við, sem þjóðfélag erum nefnilega að ráða þetta fólk í vinnu, og það er allavega minn skilningur að ég vil frekar hafa lækni eða hjúkrunarfræðing frá vinnu í einn dag í stað þess að skapa flensufaraldur hjá fólki sem er veikt fyrir.

Til eru fræ

Verkfall kjarnastétta þjóðfélagsins sem skipta máli upp á líf og dauða er alvarlegt mál. Það endurspeglar að það hefur ekki farið fram sú leiðrétting sem fólk bjóst við, hvort sem um er að ræða siðferðislega leiðréttingu eða efnahagslega leiðréttingu. Kjörin eru ekki í takt við það sem fólk leggur á sig. Kaupmáttur launanna virðist bara fara í súginn með klósettpappírnum, sem heldur áfram að hækka.

Á sama tíma er fræjum sáð með fréttum um veikindaréttindi opinberra starfsmanna, þegar á þeim sama tíma er verið að setja lög á verkföll. Þarna er verið að sá fræjum sundrungar en ekki samkenndar um grunnstoðir þess þjóðfélags sem vill þykjast hafa norrænt velferðarkerfi.

Í norrænu velferðarkerfi fara læknar ekki í vikulöng – mánaðalöng verkföll. Eða hjúkrunarfræðingar. Eða líftæknifræðingar. Því, þá deyr fólk.

Við búum á landi, draumalandinu Íslandi, þar sem heilbrigðisstéttir fara í verkfall. Læknar. Líftæknifræðingar. Hjúkrunarkonur. Við, á draumalandinu Íslandi, erum ekki einu sinni með nógu margt fólk til þess að manna þrifin á spítalanum fyrir sómasamleg kjör miðað við vinnuálag.

Við viljum að sumir draumar rætist, sérstaklega þessa unga fólks sem við eigum framtíð okkar undir.

Rétt eins og sum fræ verða aldrei blóm, þá héldu alltof margir samnemendur afa míns heitins heim til feðra sinnna langt fyrir aldur fram, án þess að fá almennilegt tækifæri í þessum heimi. Betri veikindaréttindi kennara hefði komið í veg fyrir það.

Að nýta veikindaréttindi má aldrei vera notað sem skömm, heldur sem virðing við aðra í kringum sig. Þau eru til þess gerð að stuðla að heilbrigðara samfélagi og vernda veikustu einstaklingana okkar, en kannski er það bara þannig, að aldrei geta sumir draumar ræst?

Ásta Helgadóttir

Varaþingmaður Pírata

 

Smelltu hér til að lesa meira úr Reykjavík vikublaði.

Ein athugasemd við “Veikindaréttindi: Aldrei geta sumir draumar ræst

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s