Hvernig stöðvum við útbreiðslu lúpínu?

Þorvaldur Örn Arnarson, líffræðingur
Þorvaldur Örn Árnason, líffræðingur

 

– Er það yfir höfuð hægt? Getum við haft einhverja stjórn á henni?

Tilgangurinn er ekki að útrýma lúpínu, enda ógjörningur og hún kemur að góðum notum við að græða upp stór svæði og búa land undir ræktun túna, akurlendis eða skógar. En hún er ekki leyfð á hálendinu fyrir ofan 400 m og almennt ekki á friðuðu landi. Svo vilja sumir landeigendur og sumarbústaðareigendur ekki að hún flæði stjórnlaust yfir land þeirra. Því þarf að vera hægt að hægja á eða stöðva útbreiðslu hennar á ný svæði, t.d. með því að fjarlægja toppa og minnstu breiðurnar í útjaðri lúpínusvæða.

Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd (Sjá) hafa fylgst með lúpínu á nokkrum stöðum og prófað ýmislegt til að hægja á eða stöðva framrás hennar inn á friðuð svæði eða forna gönguleið. Hér er byggt á þeirri reynslu.

Aðalatriðin

 1. Velja þarf viðfangsefnin af kostgæfni, að þau séu brýn og viðráðanleg. Ekki færast of mikið í fang. Það þjónar engum tilgangi að taka bara hluta af lúpínubreiðu, eða að taka hana bara eitt ár.
 2. Endurtaka þarf aðgerðina árlega í nokkur ár – enginn veit hve mörg, því hluti af fræjum sem lúpínan myndar liggja í dvala í moldinni árum og áratugum saman. Vinnan veður þó minni með árunum ef vel er staðið að verki.
 3. Veljum þann árstíma sem lúpínan er viðkvæmust og áður en hún myndar fræ, en fræmyndun byrjar í lok júní og nær hámarki í ágúst. Líklega er hún viðkvæmust þegar hún er að byrja að blómstra, venjulega í júní, snemma eða seint eftir árferði. Mikilvægt er að ná henni áður en fræmyndun hefst. Gera þarf ráð fyrir að hún geti lokið fræmyndun með hjálp næringar úr stöngli og rót, líkt og fleiri jurtir, þó búið sé að fella hana, nema blómin séu slitin frá stöngli og rót. Ef fræmyndun er hafin neyðist maður til að safna stilkunum með blómum og fræbelgjum og fjarlæga af svæðinu.
 4. Best er að taka lúpínuna með rót (með skóflu) (sem þó er illmögulegt þar sem jarðvegur er grýttur) og valda sem minnstu jarðraski. Næst best er að taka allan ofanjarðarvöxtinn; stöngul og blöð, með hníf eða slíta upp.
 5. Ungu og smáu kímplönturnar (þær sem eru á fyrsta ári) eru frábrugðnar stærri plöntum því kímblöðin (fystu tvö blöðin) eru allt öðruvísi. Mikilvægt er að læra að þekkja þær og tiltölulega auðvelt er að draga þær upp með rót. Þær ungplöntur sem ekki eru teknar verða mun erfiðari viðfangs næstu ár.
 6. Merkja og þekkja staðinn og koma þar árlega, jafnvel tvisvar fyrstu sumrin.

Meira um árstímann

Ef lúpínan er tekin með rót skiptir mestu að gera það snemma sumars, áður en hún nær að mynda fræ.

Ef rótin er skilin eftir er best að taka ofanjarðarvöxtinn þegar forðinn í rótinni er í lágmarki. Ekki er vitað með vissu á hvaða þroskastigi það er. Þar togast nefnilega tvennt á: að lúpínan sé búin að nota sem mest af rótarforðanum frá árinu áður, og að hún sé búin að mynda sem minnst af nýjum næringarforða í rótina. Forðann notar hún líklega mest til að mynda sæmilegan blaðmassa og það gerir hún strax fyrir blómgun. Líklega er forði fyrra árs að mestu búinn þegar blómgun hefst. Þegar laufblöðin eru komin er ljóstillífunin komin á fullt. Hún framleiðir aðallega í áframhaldandi vöxt og blómgun og síðan fræmyndun. Hvenær hún byrjar að safna forða í rótina að nýju er erfitt að segja, hvort það sé jafnt og þétt allt sumarið eða aðallega á haustin eftir fræmyndun.

Hvað hægir á eða stöðvar útbreiðslu lúpínu?

 • Slíta hana upp með rót fyrir fræmyndun, eins og lýst er hér framar.
 • Klippa, skera eða slíta ofanjarðarvöxtinn árlega, sjá hér framar.
 • Sauðfjárbeit getur hindrað að lúpínungviði nái að vaxa og dafna og því eru sums staðar skörp skil við girðingar þar sem beit er bara öðru megin girðingar og engin lúpína þeim megin. Þannig er hægt (með nokkrum tilkostnaði) að stöðva framrás lúpínu með því að girða beitarhólf þvert á útbreiðslustefnuna og beita árlega.
 • Sögur fara af því að hross bíti lúpínu, en það þarf að rannsaka nánar. Líklega taka þau ungviðið líkt og sauðféð, en hætt við að þurfi að nauðbeita ef þau eiga að bíta niður fullþroska lúpínubreiður.
 • Skógur getur vaxið lúpínu yfir höfuð og skyggt hana út, en lúpínan heldur velli í skóglausum rjóðrum og í jöðrum. Kerfill (önnur framandi ágeng jurt) vex henni líka yfir höfuð.
 • Allar aðferðir til að takmarka útbreiðslu lúpínu kosta mikið fé og/eða fyrirhöfn – og þekkingu.

Misskilningur eða ósannindi

 • Að hægt sé að eyða lúpínubreiðum með sauðfárbeit. Það hefur verið rannsakað og reynist ekki hægt. Fullþroska lúpína er of eitruð fyrir kindurnar.
 • Að tryggt sé að hún hörfi eftir að hafa grætt upp landið. Á því gæti orðið bið í áratugi, jafnvel aldir, þó þekja hennar kunni að minnka. Dæmi eru um að gömul lúpína hafi hörfað, þ.e. minnkað og nánast horfið, einkum á þurrum, úrkomulitlum landsvæðum og í Heiðmörk, en víðast hvar virðist hún breiðast ört út.
 • Að hún vaxi og dafni bara í ógrónu eða lítt grónu landi. Ótal dæmi og fjöldi ljósmynda afsanna það. Sjá einnig rannsókn frá Húsavík: http://www.ni.is/frettir/nr/13784
 • Að eitrun með roundup sé góð aðferð. Gerð var tilraun á Helluvaðssandi 2007 með mismunandi eiturskammta á mismunandi tíma sumars. Þekja lúpínu – svo og flestra annarra tegunda – var marktækt minni árið eftir í eitruðu reitunum, en lúpínan hvarf þó alls ekki og eitrunin hefur engin áhrif á fræforða í jarðvegi. Ekki virðist hafa verið metið hvort áhrifa eitrunarinnar gæti til lengri tíma. Þó er víða klifað á því í enn dag að hægt sé að útrýma henni með eitri.

Lokaorð

Lúpínan er mjög afkastamikil og hagkvæm uppgræðsluplanta og er heimilt að nota hana til landgræðslæu á samfelldum svæðum á láglendi. Það er hins vegar afar erfitt að hafa stjórn á henni

Alaskalúpínan telst vera ágeng, framandi tegund í íslenskri náttúru. Sjá nánar hér: http://agengar.land.is/

Hún er jafnfram sú jurt sem ógnar hvað mest sérkennum og fjölbreytni íslensku flórunnar og ekkert annað getur á næstu áratugum breytt ásýnd landsins jafn mikið. Lúpínan mun á næstu áratugum breyta ásýnd Íslands meira en háspennulínur og virkjanir, jafnvel þótt blautustu draumar virkjanasinna rætist.

 

Þorvaldur Örn Árnason

Þorvaldur er líffræðingur og vann m.a. við lúpínurannsóknir á Rala 1978 og hefur fylgst með lúpínunni síðan. Þorvaldur birti grein um lúpínu í Nátturufræðingnum 2011. Hún er enn ekki á netinu, en drög að henni er hægt að lesa hér, m.a. heimildarlistann: http://vogar.is/resources/Files/241_Að%20hemja%20lúpínu%20á%20Íslandi.pdf

Þorvaldur og Ragnheiður, kona hans, og Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd hafa undanfarin ár leitast við að hemja útbreiðslu lúpínu á nokkrum stöðum og öðlast nokkra reynslu í því.

Hér eru skýrslur um það starf:

http://issuu.com/umhverfismal/docs/l__p__nuvinna_reykjanesf__lkvangi_2

http://issuu.com/umhverfismal/docs/k__nnun_l__p__nu____rn.f__lkvangi_2/1

http://issuu.com/umhverfismal/docs/skorradalur_sk__rsla_2012_og_1214

http://issuu.com/umhverfismal/docs/sj__lfbo__ali__ar____vogastapa_2014

Aðrar heimildir:

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s