Kosningar og kannanir – umboð og erindi

Alþingishúsið_með_salernispappír_og_eggjum
Vinsældir stjórnmálamanna og -flokka eru misjafnar, bæði milli kosninga og í kosningum. Vinsældamælingar milli kosninga hafa formlega engin áhrif á umboð en vinsældamælingin á kjördag skiptir máli.

Eftir Atla Þór Fanndal

atli@thorfanndal.com

„Ég nýt þess ekki að vera inni á Alþingi,“ skrifaði Björt Ólafsdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar á Facebook í upphafi vikunnar. „Manni finnst [maður vera] umboðslaus þessa dagana, það er bara þannig.“ Björt segir um leið að hún sé stolt af verkum sínum.

„Við erum eini flokkurinn sem höfum lýst því yfir að vera á móti ívilnunum sem eru hannaðar sérstaklega fyrir stóriðju, höfum lagt áherslu á NPA, varnir gegn hefndarklámi, talað fyrir frelsi á mörgum sviðum – til dæmis að fá að velja nöfn á börnin okkar án aðkomu ríkisins, verið mjög klár og skýr á móti skuldaniðurfellingunni allt frá því fyrir kosningar þegar þannig málflutningur var nú ekki vinsæll, og fleira og fleira,“ skrifaði Björt.

Óvenjulegt

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd: Johannes Jansson/norden.org
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðis- flokksins.
Mynd: Johannes Jansson/norden.org

Að þingmaður opni á umræðu um sína eigin veiku stöðu er óvenjulegt þótt slíkt komi fyrir. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vakti athygli í þættinum Forystusætið á RÚV, skömmu fyrir Alþingiskosningar 2013, þegar hann viðurkenndi að hann hefði íhugað afsögn. Viðskiptablaðið birti niðurstöður skoðanakönnunar þar sem kom fram að mun fleiri sögðust reiðubúnir að kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður flokksins, væri formaður í stað Bjarna Benediktssonar. Þegar Bjarni var spurður út í þetta í Forystusætinu sagðist hann aldrei hafa kveinkað sér undan árásum andstæðinga sinna og að sér hefði aldrei komið til hugar að hætta sem formaður þess vegna. Það væri hins vegar erfiðara að takast á við gagnrýni innan flokksins.

Umboðið stendur

„Það er náttúrulega enginn umboðslaus þótt skoðanakannanir sýni sveiflur í fylginu því að formlegar reglur eru þær að umboðið sé veitt til fjögurra ára, minna ef það er kosið,“ segir Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. „Þetta getur auðvitað allt breyst. Ég held að stjórnmálamenn ættu að vera með varann á sér gagnvart skoðanakönnunum. Reyna að læra af þeim það sem þeir geta lært en ekki taka þær of bókstaflega. Fyrir litla flokka sem hafa stutta sögu og tiltölulega fámennan hóp sem ber uppi flokkinn og flokkstarfið þá getur verið heilmikið streð að fá ekki vondar skoðanakannanir. Það er erfitt fyrir stjórnmálamenn að fá erfiða mælingu en umboðið sem slíkt er ekki farið.“

– Stjórnmál eru samt líka flóknari en formlegu reglurnar, ekki satt?

„Já en segjum að Björt myndi hætta og það kæmi inn varamaður. Myndi það auka traust eða er þetta kannski frekar ábending um að spýta í lófana.“

Einlægt og virðingavert

Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingmaður Hreyfingarinnar.
Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingmaður Hreyfingarinnar.

„Mig langaði voða mikið að hugga hana,“ segir Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingkona Hreyfingarinnar, um málið. „Það er auðvitað ekkert hægt að starfa þannig að þú hlaupir bara eftir skoðanakönnunum. Þær eru aldrei annað en einhver púlsmæling á eitthvað ástand og stemmingu sem er akkúrat á einhverjum tímapunkti. Samt sem áður þá er þetta pínulítið raunverulegt líka.“ Margrét segir það hafa verið hennar upplifun á þingi að þingmenn spái almennt ekki mikið í styrk eigin umboðs. Allavega sé slíkt ekki rætt milli flokka. „Maður fann það samt á þingi að ef það komu miklar sveiflur í fylginu þá hafði þetta áhrif. Við vorum t.d. við hliðina á Samfylkingunni í þinginu. Þegar það komu allt í einu niðurstöður úr könnun þar sem Samfylkingin hafði dunkað mjög mikið niður þá fann maður að það var titringur. Þetta er þá frekar eitthvað sem fólk ræðir innan síns flokks.“

– Björt er væntanlega samt að benda á að þótt umboðið sé lögformlegt þá geti stjórnmálamenn ekki látið eins og þeir hafi bara frítt spil til að gera hvað sem er?

„Já og það finnst mér mjög gott hjá henni. Þingmenn og borgararnir eiga að vera í meiri samskiptum. Borgararnir eiga að hafa meiri áhrif allt kjörtímabilið. Það á ekki að vera þannig að fólk sé bara spurt á fjögurra ára fresti og svo sé bara frítt spil. Ég held samt að leiðin til að koma á virkara sambandi sé ekki að þingmenn hlaupi eftir skoðanakönnunum.“

– Hún vitnar vissulega til skoðanakönnunar máli sínu til stuðnings en telur þú að þetta sé hluti af vanda Bjartrar framtíðar við að sanna tilgang sinn?

„Ég held það reyndar. Ég hef aldrei almennilega áttað mig á hvað þau í Bjartri framtíð ætla að standa fyrir annað en að þau ætli að vera voðalega kurteis. Þau vilja líka starfa með öðrum hætti.“ Margrét segir ástandið núna þannig að stjórnarandstaðan starfi saman í baráttu við meirihlutann. Annað sé ekki hægt en að það geri Bjartri framtíð ekki auðveldara að sannfæra kjósendur um að þau séu öðruvísi en hinir. „Þau eru öll í sama leiknum, málþóf, fundarstjórn forseta og það allt enda að berjast fyrir því sem þau eru sammála um.“

Ekki kaldrifjaður stjórnmálamaður

Björt Ólafsdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar. Mynd: Björt framtíð.
Björt Ólafsdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar.
Mynd: Björt framtíð.

„Ég geri mér grein fyrir því að maður fær umboðið á fjögurra ára fresti og svo geta skoðanakannanir rokkað,“ segir Björt Ólafsdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar um ummælin kjölfar þess að könnun sýndi að flokkurinn fengi engan mann kjörinn vöktu töluverða athygli á dögunum. „Ég er bara lýsa því að auðvitað hlýtur manni sem manneskju – maður verður ekki kaldrifjaður þótt maður sé orðinn stjórnmálamaður – að spyrja sjálfa sig hvers vegna maður er á þingi. Allavega á maður alltaf að vera að spyrja sjálfan sig: „Er ég ekki hér inni vegna þess að einhver vill það?“ Þegar eitthvað gefur svo til kynna að það sé ekki þannig þá finnst mér að við eigum að fjalla um það alveg eins og við fjöllum um gott gengi,“ segir Björt. „Ég er í raun bara að ávarpa það sem maður heyrir alltaf á stjórnmálamönnum að ef það gengur vel í könnunum þá eiga allir rosa mikið inni fyrir því en við erum vön því að talað sé minna um það ef niðurstöður eru öðruvísi.“

Sérstaða og tilgangur

– Þú ert varla ónæm fyrir þeirri umræðu að Björt framtíð hafi ekki náð að sýna fram á tilgang sinn í stjórnmálunum. Er ástæðan fyrir veru þinni á hreinu?

„Nei, að sjálfsögðu er ég ekki ónæm fyrir neinni þannig umræðu og ekkert okkar er þannig. Fólk tekur gagnrýni til sín og vill gera betur. Það á örugglega við um flest fólk í stjórnmálum þótt það sé mismunandi hvað fólk segir út á við.“

– Hvað með þinn tilgang á þingi?

„Það var mjög heillandi þótti mér og stórt og mikið baráttumál að breyta því hvernig stjórnmál eru framsett og hvernig við iðkum þau. Það finnst mér mjög stórt mál. Ég held að ef við breytum þeirri grunnforsendu þá breytum við svo mörgu í leiðinni,“ svarar Björt. „Ég held að við höfum verið kosin út á það. Fólk er orðið þreytt á því hvernig stjórnmál eru iðkuð en í þeirri reiði og átökum sem stjórnmálin eru í núna, öll þessi verkföll, rammaáætlun og ásýnd sem þingið hefur vegna erfiðra mála, þá er kannski ekkert sérstaklega mikil eftirspurn eftir því að gera hlutina öðruvísi. Hvernig er best að segja þetta? Fólk er svolítið vant því að hart sé látið mæta hörðu og það er svolítið beðið um það – finnst manni. Í því umhverfi erum við kannski á svolítið skrýtnum stað vegna þess að fólk er vant öðrum viðbrögðum.“

Átakakúltúr

Skilaboð um að spýta í lófana? spyr Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur.
Skilaboð um að spýta í lófana? spyr Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur.

– Getur verið að tilgáta Bjartrar framtíðar um að átök séu í eðli sínu vond og ómálefnaleg sé einfaldlega röng og það sé Bjartri framtíð til trafala? Átök eiga sér nefnilega oft eðlilegar skýringar.

„Ég hef ekki þá tilgátu um að átök séu vond og Björt framtíð hefur það ekki. Það er bara spurning um hvernig maður fer inn í átökin. Hvort maður setur á sig boxhanskana eða tekur einhvern veginn öðruvísi á málum. Það er engin átakafælni í Bjartri framtíð en það eru miklar væntingar hjá okkur um að við getum breytt því hvernig þessi átök eru meðhöndluð svo að niðurstöðurnar séu betri.“ – Hverjar eru þessar aðferðir? „Þær eru mýkri og byggjast meira á samtali og sátt. Þetta snýst um að reyna að fá fólk til að hverfast ekki á tveimur pólum heldur mætast í miðjunni.“

– Nú er gjarnan bent á líkindi við Samfylkinguna, nú þegar þú talar um mýkri stjórnmálahefð þá hugsar maður um samræðustjórnmálin sem Samfylking boðaði fyrir nokkrum árum?

„Ég kannast ekki alveg við það að okkur sé alltaf líkt við Samfylkinguna. Í ýmsum málum er meira frjálslyndi hjá okkur en t.d. Sjálfstæðisflokknum. Ýmsir aðrir t.d. eins og Hanna Birna Kristjánsdóttir ræða um samræðustjórnmál. Það er ekkert sem Samfylkingin á frekar en annað. Það fer svolítið eftir því við hvern er rætt hvar hann sér tengingar okkar við aðra.“ – Spurningin er samt alltaf hvort þið hafið náð að sannfæra kjósendur um tilgang þess að þið séuð eigin stjórnmálaafl? „Ég held að þeir sem að kusu okkur hafi séð að við værum eitthvað annað en allir hinir flokkarnir. Ég held að það sé eiginlega bara stutta og besta svarið við þessari spurningu.“

Píratar taka fylgið

Björt bendir á að fylgi alla flokka sé að fara til Pírata. Það sé ekki bara vandamál Bjartrar framtíðar.

– Er Pírötum kannski að takast að breyta ásýnd stjórnmálanna, ykkar ætlunarverki?

„Píratar eru bara duglegir í því að vera með ferska nálgun og þeir fá athygli fyrir það. Þeir eru komnir á radar fjölmiðla og annarra. Það gengur bara vel hjá þeim og mér finnst það bara gott. Ég samgleðst þeim með það og finnst það bara gott. Þau gera ýmsa hluti bara mjög vel.“

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s