„Reykjavíkurborg ber að axla ábyrgð á þessu sorglega máli“

Stjórn Strætó bs.
Stjórn Strætó bs.

Fulltrúar meirihluta og minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur greinir á um ábyrgð stjórnar Strætó bs. vegna fjölda mistaka við innleiðingu breytinga á ferðaþjónustu fatlaðra í vetur. Framsókn og flugvallarvinir krefjast þess að skipt verði um stjórn og vísa meðal ananars til þess að stjórnin hafi í reynd verið sett af í vetur og neyðarstjórn skipuð til að sjá um feðraþjónustuna. Sjálfstæðismenn segja að borgin eigi að axla ábyrgð, eins og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Stjórnarmenn í Strætó eigi að horfa í eigin barm. Fulltrúar meirihluta Bjartrar framtíðar, Pírata, Samfylkingar og Vinstri grænna segja hins vegar að ekki megi kenna núverandi stjórn um allt sem aflaga fór. Ekki sé víst hver hafi átt að bera heildarábyrgð á innleiðingu breytinganna.

Meirihluti borgarráðs felldi á dögunum tillögu Framsóknar og flugvallarvina um að skipa nýja fulltrúa í stjórn Strætó bs. Tilefnið er klúður og ófarir við innleiðingu á breytingum á ferðaþjónustu fatlaðra í vetur. Fram hefur komið að breytingarnar hafi verið gerðar á röngum tíma árs, ekkert samráð hafi verið haft við þá sem þjónustuna fá, fólki með þekkingu og reynslu hafi verið sagt upp störfum, einnig fötluðum starfsmönnum. Þjónustan var enn fremur mjög slæm. Mikið var um seinkanir. Fólk þurfti að bíða úti um hávetur, eða var skilið eftir. Dæmi voru um að fólk týndist eða gleymdist og þótti mildi að enginn skaðaðist meira en raun ber vitni. Ákveðið var að setja á stofn sérstaka neyðarstjórn undir forystu Stefáns Eiríkssonar, forstöðumanns Velferðarsviðs borgarinnar, í því skyni að koma ferðaþjónustunni í lag. Nýlega var svo lögð fram svört skýrsla frá Innri endurskoðun borgarinnar, þar sem innleiðinginn fær falleinkunn.

Tillagan felld

Framsóknarmenn í borgarráði lögðu til í febrúar að skipt yrði um stjórn í Strætó bs. Skipt yrði um fulltrúa Reykjavíkur og varamann í stjórninni. „Jafnframt skorum við á fulltrúa Reykjavíkurborgar í Sambandi sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu að leggja fram tillögu á stjórnarfundi SSH um að öll stjórn Strætó bs. verði leyst frá störfum og ný stjórn skipuð, en Reykjavíkurborg er eigandi 60,3% í Strætó bs., skv síðasta ársreikningi og hefur vald samkvæmt því.“

Tillögunni var þá frestað, en hún var tekin fyrir í síðustu viku og þá felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa meirihlutans, gegn þremur atkvæðum framsóknar- og sjálfstæðismanna.

Veik stjórn og ráðríkur stjórnandi

Í bókun meirihlutans er skuldinni að mestu leyti skellt á Reyni Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra byggðasamlagsins, en sagt „hæpið“ að „veik“ stjórn eigi að axla alla ábyrgð.

„Í skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um sameiginlega ferðaþjónustu fatlaðs fólks er rakið hvar ábyrgð á mótun og innleiðingu breytinganna á þjónustunni liggur og er ljóst af henni að hæpið er að færa ábyrgð á þeim misbrestum sem urðu í innleiðingunni á stjórn Strætó bs. í jafn ríkum mæli og gengið er út frá í tillögu Framsóknar og flugvallarvina um að hlutast verði til um að skipta út stjórnamönnum í fyrirtækinu.“

Screen Shot 2015-06-27 at 12.22.57 PMVísað er til skýrslu innri endurskoðuna að Strætó „hafi verið í þeirri einkennilegu stöðu að hafa ráðríkan framkvæmdastjóra sem virðist hafa farið sínu fram, en að því er virðist frekar veika stjórn þar sem skipt var reglulega um stjórnarformann. Í því ljósi segir innri endurskoðun nauðsynlegt að skýra til fulls hlutverk og umboð stjórnar Strætó bs. og skilgreina hlutverk fulltrúaráðs SSH í eigendastefnu. Sú stjórn sem nú situr í Strætó var skipuð þegar innleiðing breytinganna var að hefjast en ekki var ljóst hverjum var falið að bera heildarábyrgð á því verkefni.“

Eigendur hafi haldið að Strætó bæri alla ábyrgð, en Strætó hafi bara talið sig bera hluta af ábyrgðinni.

„Eðlilegra“ að styðja stjórnina

„Í því samhengi telur innri endurskoðun að eftirlit hjá sveitarfélögum og velferðaráðum þeirra hafi brugðist. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata geta í þessu ljósi ekki tekið undir tillögu þar sem skuld er skellt á stjórn Strætó bs. og fullyrt er að verkefni tengd Strætó bs. séu stjórninni almennt ofviða. Eðlilegra er að eigendur styðji við núverandi stjórn í sínum verkum eins og þarf og axli þannig sinn hluta ábyrgðarinnar á þeim mistökum sem gerð voru við innleiðingu á sameiginlegri ferðaþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í bókun meirihlutans.

„Ber að axla ábyrgð“

Sjálfstæðismenn segja í sinni bókun að stjórnarmenn í Strætó hljóti að hugleiða stöðu sína, enda hafi eftirlit hennar með innleiðingunni brugðist. Þar er tekið undir með því sem segir í skýrslu innri endurskoðunar um að stjórnin hafi verið veik og hún hafi öðru fremur stimplað tillögur framkvæmdastjórnar Strætó bs. „Enn fremur segir að ekki verði annað séð en að eftirlit stjórnar með rekstri hafi brugðist varðandi verkefni er lutu að ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Reykjavíkurborg ber að axla ábyrgð á þessu sorglega máli. Það eiga önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að gera líka. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa áður bent á að stjórnarmenn hljóti að hugleiða stöðu sína.“

Undrast tregðu 

„Framsókn og flugvallarvinir furða sig á tregðu meirihlutans til að axla stjórnunarlega, faglega og pólitíska ábyrgð á þeirri handvömm sem kjörin stjórn Strætó bs. hefur orðið uppvís að,“ segir í þeirra bókun. Þar segir að í byrjun febrúar hafi ákveðin mál verið færð frá stjórn Strætó og sérstök neyðarstjórn hafi verið skipuð um ferðaþjónustuna „þar sem ljóst var að skipaðri stjórn var ofviða að standa að og klára innleiðingu ferðaþjónustu fatlaðra. Þá liggur fyrir skýrsla innri endurskoðanda þar sem kveðinn er upp áfellisdómur yfir stjórn Strætó bs. í þeim verkefnum sem snúa að ferðaþjónustu fatlaðra.“ Þá ítrekar borgarráðsfulltrui Framsóknar og flugvallarvina að stjórn Strætó bs. hafi „misst traust íbúa höfuðborgarsvæðisins og borgarbúa til áframhaldandi verka.“

Segir stjórnina bera ábyrgð

Ásgeir Eiríksson.
Ásgeir Eiríksson.

„Það er auðvitað á ábyrgð stjórnar og framkvæmdastjóra Strætó bs. hvernig að þessari framkvæmd var staðið,“ sagði Ásgeir Eiríksson, fv. framkvæmdastjóri Strætó, við Reykjavík vikublað í febrúar. Hann talaði raunar einnig sérstaklega um framgöngu þáverandi framkvæmdastjóra Strætó, Reynis Jónssonar, í aðdraganda innleiðingarinnar, og taldi vera sjálfstætt rannsóknarefni.

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s