Nýtt umhverfismat fyrir Neðri-Þjórsá, takk

Sérstætt lífrækið Viðey í neðri hluta Þjórsár verður fyrir miklum áhrifum af fyrirhugaðri virkjun, þegar dregur úr rennsli við hólmann. Girðing Landsvirkjunar dugar ekki til segir sérfræðingur. Mynd: Anna Sigríður Valdimarsdóttir.
Sérstætt lífrækið Viðey í neðri hluta Þjórsár verður fyrir miklum áhrifum af fyrirhugaðri virkjun, þegar dregur úr rennsli við hólmann. Girðing Landsvirkjunar dugar ekki til segir sérfræðingur.
Mynd: Anna Sigríður Valdimarsdóttir.

Eftir Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðing

 

Ef einhver heldur að það geti nú varla þurft nýtt umhverfismat fyrir virkjanirnar í neðri Þjórsá þá eru hérna nokkrar glefsur úr samantektinni í gamla umhverfismatinu frá 2003 og athugasemdir.

Í hendur barnabarna?

„Aur sem berst niður Þjórsá mun safnast fyrir í Hagalóni. Engar kerfisbundnar mælingar á aurburði hafa verið gerðar á svæðinu en áætlað er að 0,1 Gl (100.000 m3) af framburði setjist til í lóninu á ári. Unnt verður að koma 13–14 Gl af framburði fyrir á bökkum Hagalóns“

– Sem sagt, menn vita ekki alveg hversu mikill leir berst með Þjórsá niður í lón Hvammsvirkjunar en það verður heill hellingur, og hann mun setjast til í lóninu og þurrum farveginum. Þegar framburðurinn er svo farinn að fylla lónið eftir örfáa áratugi er gert ráð fyrir að honum verði einhvern veginn mokað upp úr lóninu og dreift á bakkana umhverfis. Látum barnabörnin bara sjá um þetta…

Litið til Hálslóns

Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur.
Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur.

„Komið verður í veg fyrir strandrof við fyrirhuguð lón með fyrirbyggjandi aðgerðum eins og kostur er og fylgst verður með ströndinni fyrstu árin eftir að framkvæmdum lýkur. Jafnframt verður komið í veg fyrir fok úr þurrum farvegi Þjórsár með uppgræðsluaðgerðum eins og kostur er.“

– Athugið að umhverfismatið er frá því áður en Kárahnjúkavirkjun tók til starfa. Það væri kannski ráð að líta til rofsins þar við bakka Hálslóns og leirfokinu úr þurru lónstæðinu áður en lengra er haldið. Hvernig litist ykkur á, til dæmis brúnar strendur eins og við Hálslónið, sbr. meðfylgjandi mynd. Takið einnig eftir orðalaginu „eins og kostur er“. Áætlað er að koma í veg fyrir leirfok yfir byggðir Suðurlandsundirlendisins, svona „eins og kostur er“. Traustvekjandi, ekki satt?

Lífríki einskis metið

„Talið er að með tryggingu lágmarksrennslis sem nemur 10-15 m3/s verði unnt að tryggja viðgang lífríkisins“

– Annar traustvekjandi frasi, „talið er“, og bara lífríki mesta fljóts landsins lagt undir. Og með þessu á rétt svo að tryggja „viðgang“ lífríkisins. Bara til að hafa það á hreinu er hreint ekki búið að rannsaka nægilega áhrifin á laxinn og það sem meira er þá hafa áhrifin á silunginn nánast ekkert verið rannsökuð. Veiðfélag Þjórsár orðaði það svona snyrtilega í umsögn um Hvammsvirkjun til verkefnisstjórnar rammaáætlunar árið 2014: „Þekkingarskorturinn er augljós varðandi lífslíkur fiska með tilkomu virkjunar, og verður eingöngu um að ræða að vona það besta“. Aftast í umsögninni stendur: „Þar sem ekki hafa verið lögð fyrir stjórn veiðifélagsins vísindalega unnin gögn óháðra aðila, sem gefi til kynna að lausnir séu fundnar á virkjun árinnar án hættu fyrir lífríki, telur stjórn veiðfélagsins fullkomlega ábyrgðarlaust að setja Hvammsvirkjun í nýtingarflokk.“ Fullkomlega ábyrgðarlaust, og það frá fólki sem er umhugað um lífríki Þjórsár. Það er alveg ljóst að án mótvægisaðgerða myndu virkjanirnar rústa lífríkinu á hverjum stað og fiskistofnarnir hrynja. Landsvirkjun segir hins vegar að það megi alveg tékka samt á þessu og athuga hvort ekki sé hægt að redda þessu með mótvægisaðgerðum, sem enginn veit samt hvort virki yfir höfuð. Lífríki Þjórsár er greinilega einskis metið. Ætli það komi svo ekki bara eitt stórt „Úps!“ nokkrum árum eftir virkjun, eins og var með lífríkið í Lagarfljóti þegar tekist hafði að rústa því? „Það var bara ómögulegt að sjá þetta fyrir, því miður“…

Girðingarræfill um gróðurminjar

„Sérstæðar gróðurminjar í Minnanúpshólma (Viðey) eru ekki taldar í hættu“

– „Ekki taldar“, jafnvel þótt það sé deginum ljósara að farvegur Þjórsár við Viðey verður þurr og ekkert mál að komast út í eyjuna fyrir menn og málleysingja, nema auðvitað að girðingarræfillinn, sem Landsvirkjun áætlar að reisa þarna, muni stoppa alla umferð. Viðey er friðuð og stórmerkilegur staður. Fróðleiksfúsir skyldu endilega lesa athugasemd Önnu Sigríðar Valdimarssdóttur, íbúa Gnúpverjahrepps, um Viðey og áhrif Hvammsvirkjunar á eyjuna og samfélagið, en brot úr henni er hér til hliðar. Athugasemdin er jafnframt aðgengi á vefsíðu Rammaáætlunar.

Túrismi á öðrum tíma

„Virkjunarframkvæmdirnar munu ekki hafa umtalsverð áhrif á ferðamennsku.“

– Aftur, umhverfismatið er frá 2003. Þá var ferðamennskan miklu minni en nú og það voru augljóslega engar áætlanir uppi um að gefa ferðamönnum nokkurn tímann færi á að skoða fossa og farvegi Þjórsár. Raunar var örugglega skipulega haldið aftur af uppbyggingu útsýnis- og skoðunarstaða við ána. Ótrúlegt en satt að þá er ekki enn búið að malbika spottann frá hringveginum niður að Urriðafossi, hvað þá að verið sé að auglýsa gullfallega og magnaða staði eins og Búðafoss, Hestfoss og Viðey fyrir ferðamönnum. Hvað varð um frasann „það þarf að dreifa álaginu af öllum ferðamönnunum“? Meira og minna allt sem skrifað er um ferðamennsku í umhverfismatinu er löngu úrelt.

Óljóst og úrelt

„Að teknu tilliti til mótvægisaðgerða er það niðurstaða Landsvirkjunar að virkjun Þjórsár við Núp ásamt tengingu við flutningskerfi fyrirtækisins eins og kynnt er í matsskýrslu valdi ekki umtalsverðum umhverfisáhrifum.“

– Niðurstaðan er ótvíræð að mati Landsvirkjunar, og við þurfum ekkert hafa áhyggjur af því að fyrirtækið muni vilja hætta við allt klabbið. Ég held hins vegar að það sé alveg hægt að stöðva áformin en það þarf að bregðast við áður en það verður of seint. Fyrsta krafan er að það verði unnið nýtt umhverfismat. Endurskoðun á því gamla dugar ekki, allt of margt óljóst og úrelt.

Og fyrir hvað er svo allt þetta brölt? Jú, þungaiðnað á suðvesturhorninu.

 

Ítarefni um Minnanúpshólma:

„Að minnsta kosti í biðflokk“

Fjallað er nokkuð ítarlega um Minnanúpshólma í umsögn Önnu Sigríðar Valdimarsdóttur, náttúrufræðings og íbúa við ána, um Rammaáætlun, þar segir meðal annars:

„Viðey, einnig þekkt sem Minnanúpshólmi, er lítil eyja í Þjórsá sem hefur notið náttúrulegrar verndar vegna dýptar og straumþunga árinnar umhverfis eyjuna. Eyjan er lítt snortin og hafa árhif á lífríki Viðeyjar vegna mannlegra athafna verið takmörkuð fram til þessa. Gróðurfar Viðeyjar var tekið út í lokaverkefni við Landbúnaðarháskóla Íslands og byggja upplýsingar um gróðurfar í eyjunni á gögnum úr þeirri rannsókn.

Í Viðey er gróskulegur og þéttur birkiskógur, með á bilinu 3000-15000 stofna á hektara. Í eyjunni hafa fundist yfir 70 plöntutegundir. Tvær tegundir fundust sem teljast sjaldgæfar á landsvísu, grænlilja og kjarrhveiti en útbreiðsla beggja tegunda er mjög takmörkuð um sunnanvert landið. Þann 24. ágúst 2011 var Viðey í Þjórsá friðlýst sem friðland. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda lítt snortinn og gróskumikinn birkiskóg Viðeyjar og það lífríki sem skóginum fylgir. Einnig er verið að styrkja líffræðilega fjölbreytni vistgerða og vistkerfa svæðisins með verndun plöntutegunda og annarra lífvera auk erfðaauðlinda sem tegundum og búsvæðum þeirra fylgja. Verði af Hvammsvirkjun skerðist rennsli Þjórsár um Viðey svo um munar og um leið sú náttúrulega friðun sem eyjan nýtur. Að mati undirritaðrar þjónar girðing umhverfis eyjuna – sem nefnt hefur verið sem mótvægisaðgerð ef af virkjun verður – ekki sama hlutverki og áin hefur gert. Lífríki áhrifasvæðis Hvammsvirkunar hefur að mati undirritaðrar ekki verið kannað nægilega vel og áhrif virkjunar á lífríki ekki ljóst til að réttlæta slíkar framkvæmdir. Því telur undirrituð að færa verði Þjórsá og umhverfi hennar á áhrifasvæði fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar í verndarflokk – að öðrum kosti biðflokk.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s