Ritskoðun með þögninni

Christoph Büchel er höfundur framlags Íslands í ár.
Christoph Büchel er höfundur framlags Íslands í ár.

Eftir Atla Þór Fanndal

atli@thorfanndal.com

Íslensk myndlist hefur ekki getað gengið að stuðningi stjórnar Feneyjartvíæringsins vísum vegna lokunar íslenska skálans af hálfu borgaryfirvalda í Feneyjum. Í gögnum feneyskra lögregluyfirvalda kemur fram að borgaryfirvöld hafi óskað álits listahátíðarinnar á því hvort íslenski skálinn geti talist myndlistaverk. Stjórn hátíðarinnar hunsaði beiðnina og sá ekki ástæðu til að tilkynna fulltrúum Íslands um umleitanir borgaryfirvalda. „Þau halda alveg að sér höndum og í rauninni vilja hvorki hreyfa legg né lið í þessu máli,“ segir Björg Stefánsdóttir, framkvæmdastýra Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar (KÍM), í samtali við blaðið.

Hryðjuverkahræðslan

Framlag Íslands til Feneyjartvíræðingsins er frá svissneska listamanninum Christoph Büchel sem búsettur á Seyðisfirði. Büchel hefur áður vakið nokkra athygli hér á landi fyrir gjörninga sem vekja eiga athygli á þröngsýni og fordómum. Büchel komst í fréttirnar árið 2008 þegar einu af verkum hans í sýningunni Ferðalag var stolið. Verkið var stór vínylprentuð eftirlíking af kosningaáróði Svissneska þjóðarflokksins (SVP) og sýndi þrjár hvítar kindur sparka svartri í burtu. Á veggspjaldinu voru orðin „Tryggjum öryggið“ sem er bein þýðing á kosningaslagorði SVP.

Að þessu sinni var verk hans moska í aflagðri kirkju í Feneyjum. Þetta verk er framlag Íslands á Tvíæringnum. Frá upphafi gekk erfiðlega að fá leyfi fyrir verkinu frá yfirvöldum í borginni. Meðal ástæðna sem gefnar voru upp var öryggishætta. Um miðjan apríl var útlit fyrir að sýningin myndi ekki opna eftir að borgaryfirvöld tilkynntu KÍM að staðsetning verksins væri með þeim hætti að erfitt yrði að sinna öryggisgæslu. Í ljósi aukinnar hryðjuverkahættu væri slíkt eftirlit nauðsynlegt. Í umfjöllun New York Times af verki Büchels frá því byrjun maí er bent á að Feneyjartvíæringurinn hafi ekki svarað fyrirspurnum blaðsins og fjarlægt sig verkinu.

Erfitt ár

Feneyjartvíæringurinn er ein stærsta og áhrifamesta sýning á nútímalist í heiminum. Sýningin á langa sögu en hún var haldin í fyrsta sinn árið 1895. Árið 2015 hefur verið sýningunni nokkuð erfitt og þar spilar fleira inn en íslenski skálinn sem þó á nokkurn þátt í vandræðunum. NCAC, bandarísk samtök sem berjast gegn ritskoðun, hafa gagnrýnt stjórn Feneyjartvíæringsins fyrir aðgerðarleysi í málinu. Það hljóti að vera forgangsatriði fyrir stjórnendur hátíðarinnar að tryggja tjáningarfrelsi listamannana. NCAC gagnrýnir yfirvöld í Feneyjum fyrir að hafa í fyrstu nýtt sér órökstudda öryggisvá sem tylliástæðu til ritskoðunar. NCAC gagnrýnir sinnuleysi Feneyjartvíæringsins í málinu og bendir á að öryggisvá sé í auknum mæli notað til að ritskoða listaverk. NCAC bendir á að í febrúar hafi fransk-alsírska listakonan Zoulikha Bouabdellah tekið verkið Þögn úr sýningu vegna ótta um hryðjuverka- og öryggisógn. Um leið er bent á að Victoria og Albert safnið í London hafi nýlega fjarlægt teikningar af Múhameð af vefsvæði sínu vegna öryggisótta. „Victoria og Albert er dæmi um menningarstofnun sem hindrar tjáningu af ótta en ritskoðunin á verki Büchel bendir til þess að sama ótta megi nú nýta sem réttlætingu fyrir lokun verka sem yfirvöld vilja einfaldlega ekki heimila.“

Björg Stefánsdóttir, framkvæmdastýra KÍM segir í samtali við Reykjavík vikublað að hryðjuverkaógnin væri í raun afsökun gærdagsins og ekkert væri minnst á það lengur. Í hennar huga sé skýrt að yfirvöld hafi ætlað sér að koma í veg fyrir uppsetninguna.

-Funduð þið frá upphafi að sýningin væri í óþökk yfirvalda?

„Já já, það var alveg skýrt og sérstaklega þegar við reyndum að koma til móts við borgaryfirvöld þá kom alltaf bara eitthvað nýtt,“ segir Björg. „Hryðjuverkaógnin er dæmi um þetta. Hún er algjörlega komin út af borðinu. Það er enginn að spá í því lengur en það var aðalatriði fyrst. Núna er þetta farið að snúast um að við séum með einhverja starfandi verslun þarna inni. Það er reyndar ekki rétt.“ Hún segir að verslunin sem um ræðir sé eftirlíking af verslun sem sé hluti af innsetningunni. Þar sé ekkert hægt að kaupa.

Kína og Kenía

Framlag Kenýa í ár hefur vakið töluverða reiði í heimalandinu vegna þess að skálinn hefur raunar ekkert með Kenýu að gera. Í annað sinn hafa kínverskir listamenn borgað fyrir að fá að sýna í skálanum en sams konar mál kom upp árið 2013. Þótt ekki sé óalgengt að listamenn af öðrum þjóðernum sýni í skálum landa þá þykir mál Keníu gagnrýnivert. Armando Tanzini er ítalskur hóteleigandi með vegabréf frá Keníu. Tanzini hefur tekið að sér að selja listamönnum sýningarrými í skála landsins og grætt nokkuð vel á. Málið olli reiði árið 2013 en upp úr sauð í ár þegar í ljós kom að hann hafði gert hið sama öðru sinni. Kínverskir listamenn eru tilbúnir að greiða talsvert fyrir að sýna á Tvíæringnum vegna þess að slíkt hækkar verð á verkum þeirra heima þar sem ör vöxtur er á markaði fyrir nútímalist. Fyrir opnun hafði skálinn vakið mikla reiði og yfirvöld í Kenýu lýstu yfir að skálinn væri ekki á þeirra vegum né settur þar með stuðningi þeirra. Tanzini hefur svarað gagnrýninni á þann veg að hann hafi persónulega sett fé í skálann sem verði að fjármagna með einhverjum hætti. Skálinn njóti ekki stuðnings yfirvalda í Kenýu og því verði að finna fé með öðrum hætti. Silvia Gichia hjá Kuona, miðstöð sjónlistar í Nairóbí, höfuðborg landsins, hefur á móti sagt að betra sé að hafa engan skála fremur en núverandi ástand. Gitchia varð að lokum að ósk sinni og skála landsins var lokað. Um skála Kosta Ríka má svo segja svipaða sögu. Upp komst að skálinn var gerður að féþúfu líkt og Kenía og enginn varð skálinn að lokum.

Suður-afrísk kynþáttahyggja

Skáli Suður-Afríku hefur um leið vakið athygli vegna sýningar Willem Boshoff, suður-afrísks listamanns. Sýningin ber heitið Stoltur rasisti. Yfirlýst markmið sýningarinnar er að skora á hólm þá staðalímynd að hvítir íbúar Suður-Afríku sem kvarta yfir efnahagsmálum, glæpum og stjórnmálum landsins séu rasistar. Skemmst er frá því að segja að ekki eru allir sannfærðir um gæði verksins. Meðal sýningagripa er textaverk með löngum texta, einskonar orðasalati, þar sem lýst er yfir stolti yfir því að vera stimplaður rasisti þýði það, svo nokkur dæmi séu nefnd, gagnrýni á heimsku stjórnmálamanna, hneykslan á að morðingjar gangi lausir og móðgunargirni vegna ranghugmynda um HIV-veiruna. Meðal dóma um verk Boshoff í suður-afrískum fjölmiðlum er að finna grein eftir Chris Thurman, menningablaðamann Business Day, sem segir verkið skorta vitsmuni og innri togstreitu. Verkið sé í raun hálf-list sjálfhverfs listamanns.

Sýrland ósátt

Abounaddara er hópur kvikmyndafólks í Sýrlandi sem starfar í nafnleysi. Markmið hópsins er að sýna aðra mynd af Sýrlandi en almenningur fær alla jafna í fjölmiðlum. Abounaddara dró í land með þátttöku sína í sýningu Okwui Enwezor, All the world’s futures á Feneyjatvíæringnum vegna meintrar ritskoðunar. All the world’s futures sýningunni er meðal annars ætlað að horfa gagnrýnum augum á stöðu fjármagnsins í nútímanum. Í lýsingu sýningarinnar segir að fjármagn sé drama okkar tíma. Framlag Aserbaídsjan til sýningarinnar var upplestur á Auðmagninu (Das Kapital e. Karl Marx), nokkuð kómísk og ósmekkleg. Ilham Aliyev forseti landsins er í raun einvaldur í landinu og hefur í gegnum tengsl safnað gríðarlegum auði meðal annars með kúgun og arðráni á íbúum landsins. Utanríkisráð Bandaríkjanna sagði árið 2014 að undir stjórn Aliyev hafi auknar hömlur verið settar á tjáninga-, fundar og félagsfrelsi. Þar á meðal séu handtökur án verndar réttarríkisins ásamt ofbeldi gegn blaðamönnum og þeirra sem berjast fyrir umbótum í þágu mannréttinda. Þetta ásamt sögu landsins varð til þess að gagnrýnendur tóku sumir ekki vel í framlag landsins á sýningunni.

Svarti teningurinn

Lokun íslensku moskunnar minnir óneitanlega á Svarta tening Gregors Schneider. Árið 2005 átti Schneider að vera framlag Þýskalands til hátíðarinnar. Verk hans Svarti teningurinn sótti innblástur frá Ka’ba teningnum í al-Masjid al-Haram moskunni í Mekka. Svarti teningurinn var tímabundin bygging sem reisa átti á Markúsartorginu í Feneyjum. Hugmyndin var sú að gefa almenningi sem ekki hefur færi á að ferðast til Mekka færi á að skynja mikilvægi Ka’ba. Borgaryfirvöld í Feneyjum sem og ráðuneyti menningamála gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að koma í veg fyrir verkið. Saga Svarta teningsins er því sem næst spegill af íslensku moskunni. Borgaryfirvöld köstuðu hverju því sem þeim datt í hug fram sem rökum gegn sýningunni. Öryggisvá, hræðsla við hryðjuverk, móðgaðir múslimar og svo burðargeta byggingarinnar. Árið 2001 reisti Schneider einmitt stóra byggingu sem sýningu á Tvíæringnum og vann fyrir hana verðlaun. Í viðtali við The Art Newspaper árið 2005 lýsir hann því hvernig allt var gert til að komast til móts við borgaryfirvöld og ráðuneyti en allt kom fyrir ekki. Schneider hélt því alltaf fram að verkið hefði verið ritskoðað af pólitískum ástæðum. Því neitaði stjórn Tvíæringsins fyrst um sinn þótt sú neitun hafi seinna verið dregin til baka eftir að Schneider vitnaði til bréfasamskipta hans og David Croff þáverandi forseta hátíðarinnar. Schneider virðist með langræknari mönnum en árið 2012 hefndi hann sín á sýningastjórum og stjórnendum Tvíæringsins með sýningunni Skítapóstur; sýningu sem byggði á tölvupóstssamskiptum hans við Tvíæringinn, borgaryfirvöld og sýningarstjóra.

Svarti teningurinn var að lokum sýndur í Hamborg árið 2007.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s