Kveðja frá ritstjóra

Ingimar Karl Helgason. Mynd: Dagur Gunnarsson.
Ingimar Karl Helgason.
Mynd: Dagur Gunnarsson.

Nú er ákveðnu skeiði er lokið. Mjög frjóu og skemmtilegu tímabili í stuttri sögu Reykjavíkur vikublaðs.

Fréttir gærdagsins um að útgáfa blaðsins hefði verið seld til Vefpressunnar komu mjög á óvart. Satt að segja hafði útgefandinn fyrrverandi nýlega talað um að fjölga síðum í Reykjavík vikublaði með haustinu og hef ég heldur verið að hugsa á þeim nótum en öðrum.

Það blasir við að góðir hlutir hafa verið að gerast á Reykjavík vikublaði og raunar ýmsum öðrum blöðum Fótsporsútgáfunnar. Svo til allir aðrir fjölmiðlar hafa tekið upp fréttir úr næstum hverju einasta tölublaði Reykjavíkur vikublaðs allra síðustu misserin. Viðbrögð lesenda við efnistökum okkar og umfjöllun í Reykjavík vikublaði hafa jafnframt verið mjög mikil.

Yfirleitt eru þau jákvæð og fólk hefur lýst mikilli ánægju með gagnrýna, málefnalega og sanngjarna blaðamennsku. Viðbrögð úr sumum afkimum ráðandi afla hafa líka styrkt okkur í þeirri trú að við höfum verið að gera eitthvað sem skiptir máli.

Ég held satt að segja að þessi staðreynd hafi gert að verkum að útgáfufyrirtækið Fótspor hafði eitthvað til að selja þegar allt kemur til alls, hvernig sem á það er litið.

Þetta ágæta litla blað hefur ekki orðið til úr engu. Að öðrum ólöstuðum vil ég gjarnan nefna Hildi Björgvinsdóttur, Helgu Þóreyju Jónsdóttur, Arnhildi Lilý Karlsdóttur og Svavar Halldórsson sem hafa skrifað fjölbreyttar og skemmtilegar greinar um menningu og mat.

Björk Þorleifsdóttir, Þorsteinn Vilhjálmsson, Magnús Sveinn Helgason og Helga Lilja Bergmann og fleiri hafa sömuleiðis átt stóran þátt í að gera lítið blað jafn fjölbreytt og skemmtilegt og raun ber vitni með skemmtilegum og á stundum hárbeittum baksíðupistlum.

Ekki er hægt að skilja við án þess að nefna Atla Þór Fanndal sem hefur með elju sinni átt einna stærstan þátt í að lyfta Reykjavík vikublaði upp í úrvalsdeildina í blaðamennsku. Hann hefur átt hvern stórleikinn á fætur öðrum í úttektum og viðtölum um hin ólíkustu mál, frá lekamálinu, umfjöllun um kjaramál og stjórnmál og yfir í Feneyjatvíæringinginn. Fjölmiðill sem setur hagsmuni almennings í fyrsta sæti mun vilja fá hann til starfa.

Þetta eru sannarlega tímamót og við vitum ekki hvað er framundan. Ég þakka lesendum kærlega fyrir samfylgdina að sinni. Við heyrumst síðar.

Ingimar Karl Helgason

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s