Reiknað með tugþúsunda fjölgun

Horft yfir höfuðborgarsvæðið úr vestri.
Horft yfir höfuðborgarsvæðið úr vestri.

Nýtt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, Höfuðborgarsvæðið 2040, hefur verið samþykkt í öllum sveitarstjórnum og staðfest af Skipulagsstofnun. Með nýju svæðisskipulagi tekur jafnframt ný vatnsverndarsamþykkt gildi með breyttri skilgreiningu vatnsverndarsvæða. Forsvarsmenn bæjarfélaganna staðfestu þetta með undirskriftum sínum á dögunum.

Nýtt samgöngukerfi

Stefnan sem gengur undir heitinu Höfuðborgarsvæðið 2040 er sameiginleg stefna sveitarfélaganna Garðabæjar, Hafnarfjarðarkaupstaðar, Kjósarhrepps, Kópavogsbæjar, Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar og Seltjarnarnesbæjar um náið samstarf, skipulagsmál og hagkvæman vöxt svæðisins næsta aldarfjórðunginn. Í kynningu segir að enda sé höfuðborgarsvæðið eitt búsetusvæði, einn atvinnu- og húsnæðismarkaður með sameiginleg grunnkerfi, útivistarsvæði, auðlindir og náttúru. „Hryggjarstykkið í stefnunni er Borgarlína, nýtt hágæða almenningssamgöngukerfi sem tengir kjarna sveitarfélaganna og flytur farþega með skjótum og öruggum hætti um höfuðborgarsvæðið,“ segir í kynningunni.

Borið saman við „bestu borgir“

Þar er bent að hérlendis sé aðeins eitt borgarsvæði og sem slíkt gegni höfuðborgarsvæðið veigamiklu hlutverki fyrir allt landið sem miðstöð stjórnsýslu, menntunar og menningar. „Í nútímasamfélagi, þar sem fólk, fyrirtæki og fjármagn eru hreyfanleg, hafa öflug borgarsvæði sífellt meira vægi sem drifkraftur nýsköpunar og nýrra tækifæra. Það er lykilatriði í samkeppnisstöðu landsins að höfuðborgarsvæðið þróist í nútímalegt borgarsamfélag með alþjóðlegu yfirbragði þar sem lífskjör og tækifæri verði sambærileg við bestu borgir,“ segir þar jafnframt.

Í kynningunni á nýja skipulaginu er bent á að höfuðborgarsvæðið hafi byggst upp ört og að byggðin liggi um óvenju stórt svæði. Í skipulagsgögnunum er gert ráð fyrir að íbúum haldi áfram að fjölga. Gangi spár eftir fari íbúar höfuðborgarsvæðisins að nálgast 300 þúsund. Samkvæmt tölum Hagstofunnar búa nú rétt innan við 210 þúsund manns á Höfuðborgarsvæðinu, en spáð er um 70 þúsund manna íbúafjölgun á tímabilinu.

Árið 1998 voru íbúar höfuðborgarsvæðisins um 164 þúsund, samkvæmt tölum Hagstofunnar, og hefur fjölgað um hátt í 50 þúsund á rúmum einum og hálfum áratug.

Bílum fjölgi minna

„Með auknum vexti blasa við flóknar áskoranir, fyrirséðar og ófyrirséðar, sem íbúar svæðisins standa frammi fyrir og er stefnan Höfuðborgarsvæðið 2040 mótuð til að leiðbeina við úrlausn þeirra. Lykilatriði í stefnunni er að sá vöxtur verði hagkvæmur og ekki verði gengið á umhverfisgæði þeirra sem þar búa fyrir. Það er því nauðsynlegt að fyrirsjáanlegri fólksfjölgun verði mætt án þess að bílaumferð aukist í sama hlutfalli og án þess að óbyggt land verði brotið í sama mæli og gert var síðustu áratugi,“ segir í kynningu á skipulaginu.

„Borgarlínan“

Í kynningu skipulagsins er rætt um borgarlínuna, sem verði léttlestar- eða hraðvagnakerfi sem flytji fólk um höfuðborgarsvæðið „með skjótum og öruggum hætti“. Það verði burðartenging milli sveitarfélaganna. „Borgarlínan verður því raunhæfur valkostur í samgöngum og mun gegna lykilhlutverki við að breyta ferðavenjum. Meðfram Borgarlínu verða eftirsóknarverð uppbyggingarsvæði fyrir íbúa og atvinnulíf. Farþegagrunnur almenningssamgangna verður því styrktur og þannig skapast skilyrði fyrir bætta þjónustu. Borgarlína og samgöngumiðuð uppbygging sem beint er á kjarna víðsvegar um höfuðborgarsvæðið mun styrkja öll hverfi,“ segir þar enn fremur.

Vatnið sameiginleg auðlind

Samhliða svæðisskipulaginu unnu sveitarfélögin jafnframt að því að endurskoða vatnsverndarsvæði fyrir höfuðborgarsvæðið, en auðlindin er sameiginleg á stórum hluta svæðisins. „Í þeirri vinnu var í fyrsta sinn beitt grunnvatns- og rennslislíkani við afmörkun verndarsvæða. Markmiðið er að tryggja hámarkshollustu neysluvatns á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar með því að koma í veg fyrir óæskileg áhrif af völdum athafna á vatnsverndarsvæðum. Með því verður tryggt eins og frekast er unnt að íbúar höfuðborgarsvæðisins hafi alltaf þau lífsgæði að geta gengið að hreinu neysluvatni vísu.“

Sameiginleg sýn um vöxt

Forsvarsfólk sveitarfélaganna, skipulagsráða þeirra og umhverfisráðherra, .við Höfða þegar skrifað var undir hina sameiginlegu sýn.
Forsvarsfólk sveitarfélaganna, skipulagsráða þeirra og umhverfisráðherra, .við Höfða þegar skrifað var undir hina sameiginlegu sýn.

„Hið gjöfula samstarf sem lagður er grunnur að í nýju svæðisskipulagi verður drifkraftur fyrir farsæla uppbyggingu nútíma borgarsvæðis þar sem unnið verði að sjálfbærri þróun. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru ólík og mikilvægt er að þau fóstri sín sérkenni til að allir geti fundið byggð við sitt hæfi. Þannig verði skapaður frjósamur jarðvegur sem laði það besta fram á svæðinu öllu. Höfuðborgarsvæðið 2040 er virk áætlun til að ná fram sameiginlegri sýn sveitarfélaganna um hagkvæman vöxt svæðisins. Stefnan sem sett er fram með leiðarljósum, markmiðum og aðgerðum, er almennur leiðarvísir við mótun og þróun byggðar á höfuðborgarsvæðinu sem þarf að útfæra í aðalskipulögum sveitarfélaga,“ segir í kynningunni á skipulaginu.

Samræmdar áætlanir

Það er í höndum svæðisskipulagsnefndar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að fylgja málinu eftir og koma stefnunni fram. Gera á þróunaráætlanir til fjögurra ára, þar sem fram koma samræmdar áætlanri sveitarfélaganna í uppbyggingu, og aðgerðir sömuleiðis um hvernig ná á markmiðunum.

Gera á áætlun um þróun höfuðborgarsvæðisins, frá þessu ári og til ársins 2018. Þau skref sem nú á að stíga, snúa að:

  • undirbúningi Borgarlínu og þróun allra samgöngukerfa á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við Vegagerðina,
  • uppsetningu á mælaborði sem sýnir þróun helstu lykiltalna og
  • sérstökum samráðshópi sem skipaður hefur verið um vatnsvernd og vatnsnýtingu.

Byggt á samkomulagi

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu samþykktu í ágúst 2012, með sérstöku samkomulagi, að vinna að heildarendurskoðun svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins. Nýtt svæðisskipulag ætti að miðast við eðlisbreytingar sem hafa orðið í svæðisskipulagsmálum með nýjum skipulagslögum. Skrifstofu Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu var falið að stýra verkefninu. Margir hafa tekið þátt í verkefninu, segir í kynningu, bæði starfsmenn sveitarfélaga og utanaðkomandi ráðgjafar, auk stofnana eins og Vegagerðarinnar og Skipulagsstofnunar.

Greina forsendurnar

„Við endurskoðun svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins hafa verið gerðar margvíslegar forsendugreiningar sem hjálpa til að skilgreina áskoranir, móta framtíðarsýn og setja markmið og lista upp þær aðgerðir sem vinna þarf áfram á skipulagstímanum.

Forsendugreiningar voru unnar sem sjálfstæð verkefni, liður í sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins eða sérverkefni undir hatti svæðisskipulagsnefndar. Allar greiningar voru unnar í samráði við hagsmunaaðila og kemur fram í fylgiritunum hvernig því samráði var háttað,“ er fullyrt í kynningunni

Þar segir jafnframt að umhverfismat hafi verið unnið fyrir tillöguna í samræmi við lög, en sú vinna fór fram samhliða öðru.

 

Ítarefni:

Færri bílar gætu sparað samfélaginu 8 milljarða á ári

Verði spornað við fjölgun bíla, samfara fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu, og áhersla lögð á fjölbreyttari samgöngur en einkabíla, mætti spara samfélaginu allt að 195 milljarða króna á tímabilinu 2015-2040. Þetta kemur fram í spá um þróun byggðar- og samgangna á höfðborgarsvæðinu, í tengslum við nýtt svæðisskipulag.

Gatnakerfið sprakk

Í flestum borgarsamfélögum af svipaðri stærð hefur sú stefna verið tekin að efla aðra ferðamáta en einkabílinn; að íbúum fjölgi án þess að bílaumferð aukist, segir í gögnum sem birt voru í fyrra við undirbúning skipulagsins.

Í samantekt á vef Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að þróun bílaumferðar í 85 borgum í Bandaríkjunum, yfir 20 ára tímabil, hafi sýnt að meðaltafir í umferð á annatíma hafi tvöfaldast, enda þótt umtalsvert hefði verið fjárfest í gatnakerfi. Hvergi hafi tekist að auka afkastagetu gatnakerfisins nægilega hratt til að mæta aukinni bílaumferð.

Meiri tími í umferðinni

Screen Shot 2015-04-02 at 4.00.42 PM
Bygging gríðarlega kostnaðarsamra umferðarmannvirkja hefur hvergi haldið í við fjölgun bíla.

Í samantektinni segir að umferðarspár bendi til þess að erfitt verði að uppfylla ferðaþarfir fólks með góðu móti, eingöngu með því að bæta við umferðarmannvirkjun. Vaxi höfuðborgarsvæðið út á við að mestu og val fólks á farkostum óbreytt miðað við núverandi stöðu, muni bílaumferð aukast langt umfram íbúafjölgun. Þá myndi sá tími sem hver og einn eyðir að jafnaði í umferðinni aukast um fjórðung. Þá myndu tafir í umferðinni aukast verulega, enda þótt miklu fé hefði verið varið í umferðarmannvirki.

Sýndar eru þrjár sviðsmyndir. Sú fyrsta gengur út á óbreyttan vöxt bílaumferðar samfara íbúafjölgun, þannig muni fjöldi bílferða t.a.m. aukast um 45 prósent, samfara íbúafjölgun. Tvær til viðbótar ganga út frá því að bílaumferð aukist minna en svo.

Mikill samfélagslegur ábati

Fjölgi bílferðum um 17 prósent þá er gert ráð fyrir því að samfélagslegur ábati muni nema á bilinu 95-115 milljarða króna, fram til ársins 2040 en tvær til viðbótar ganga út frá því að vöxtur bílaumferðar verði minni; minna verði varið í stór samgöngumannvirki og frekari áhersla verði lögð á almenningssamgöngur.

Þá sýnir þriðja svipmyndin að ef bílferðum fjölgar aðeins um tvö prósent, að þá verðir samfélagslegur á bilinu 175-195 milljarðar króna á árabilinu 2015-2040. Í þessum sviðsmyndum er ekki gert ráð fyrir heilsufarskostnaði og kostnaði við bílastæði.

Í tillögum um svæðisskipulag er og þessu tengt, gert ráð fyrir þéttingu byggðar, en að höfuðborgarsvæðið haldi ekki áfram útþenslu um sinn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s